Það var síðastliðinn sunnudag sem Guðmundur tók við embættinu eftir afsögn Ásthildar Lóu Þórsdóttur. Það var síðan daginn eftir, í gær mánudag, sem hann byrjaði daginn á að ávarpa leiðtogafundinn sem fer fram í Hörpu um þessar mundir.
Guðmundur segir að tilhugsunin um að stökkva beint í djúpu laugina, að fara í svona stórt verkefni á fyrsta degi, hafi verið nokkuð hrollvekjandi.
„Ég skal alveg viðurkenna að ég fékk hálfgerðan hroll þegar ég hugsaði um það að ég færi beint hingað, með fullt af kollegum og kennurum. En eftir á að hyggja þá var þetta það besta sem gat gerst. Því hér fékk ég gífurlegt magn af góðum upplýsingum um mitt starf og hvað er fram undan. Þannig ég er bara guðsfeginn að fá að byrja hér.“
Áðurnefnd ræða Guðmundar var á ensku. Mikil umræða hefur skapast á netinu um enskunnáttu hans í kjölfarið. Sumir segja óviðunandi að ráðherra tali ekki betri ensku, en aðrir hafa sakað þá sem segja það um menntahroka, og finnst eðlilegt að tungumálakunnátta valdafólks sé misgóð.
Hvað finnst þér um þessi viðbrögð?
„Ósköp eðlileg, vegna þess að ég lenti þarna í vandræðum. Ég skal alveg viðurkenna það. Ég lenti í vandræðum með stafi og ljósið. Þetta var ekki nógu og gott, en fall er fararheill. Ég bara held áfram.“