Atvinnuvegaráðherra og fjármálaráðherra kynntu í gær breytingar sem ríkisstjórnin hyggst ráðast í á útreikningi veiðigjalds en með breytingunum verður veiðigjaldið því sem næst tvöfaldað. Örvar Marteinsson formaður Samtaka smærri útgerða segir hækkunina reiðarslag fyrir landsbyggðina.
„Þetta er reiðarslag fyrir þau þorp þar sem stundaðar eru veiðar og vinnsla. Ég hef bara mjög miklar áhyggjur af þessum þorpum. Ég skil ekki hvernig þessi ríkisstjórn hugsar. Þetta er svo mikil veruleikafirring að ímynda sér að ríkissjóður fái meiri tekjur út á þetta af því að í fyrsta lagi ef þetta fer, sem lítur út fyrir að vera að fara, þá býst ég við því að fullt af fólki verði sagt upp og þá verður ríkissjóður af skatttekjum að sjálfsögðu.“
Fjölskyldur hafi afkomukvíða
Hækkunin valdi kvíða og óvissu.
„Þetta er mjög kvíðvænlegt. Ég stend hérna í eldhúsglugganum heima og horfi niður á bryggju og horfi á vertíðarbáta sem hafa skapað fjölskyldum hérna í Ólafsvík og Snæfellsbæ vinnu á ársgrundvelli. Það fer bara um mig, ég held að kvíðinn líka og óvissan hjá fólkinu sem vinnur hjá þessum útgerðum, ég held að kvíðinn sé yfir framtíðarafkomu fjölskyldnanna.“
Innan Samtaka smærri útgerða séu að mestu leyti útgerðir sem gera út á línuveiðar.
„Línuveiðar eru dýrar og þetta er algjör aðför að þessum útgerðum því við megum ekki veiða með önnur veiðarfæri. Þeir sem eru í krókaaflamarkinu, við getum ekki hagrætt og nú eru fram undan kjarasamningar við sjómenn á smábátum og þetta útspil, að ætla að fara að hækka veiðigjaldið og tvöfalda það, það gerir það að verkum að það er ekkert til skiptanna.“
Ríkisstjórnin hyggst taka tillit til smærri og meðalstórra útgerða með aðgerðum eins og að hækka frítekjumarkið og þrepaskipta því.
Finnst þér þær ekki vera nóg?
„Það er langt frá því að vera nóg. Langt frá því að vera nóg og ég hef bara rosalega miklar áhyggjur af sjávarþorpunum úti á landi,“ segir Örvar.
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra sagði í Bítinu á Bylgjunni í morgun að þetta væri leiðrétting. Bæði veiði og vinnsla hafi skilað meiri hagnaði en aðrar atvinnugreinar síðustu ár.
„Þá er fráleitt að halda því fram að þetta muni knésetja útgerðina eða valda þeim þvílíku höggi að þau neyðist til að draga saman seglin í mjög arðbærri atvinnugrein. Velji einstaka útgerðir að bregðast svona við af því þær sjá ofsjónum yfir því sanngjarna gjaldi sem þær greiða fyrir afnot, fyrir nýtingarréttinn, af þjóðarauðlindinni, þá er akkúrat núna lítið við því að gera.“