Innherji

Aftur­hvarf til verndar­stefnu gæti reynt á við­náms­þrótt þjóðar­búsins og bankanna

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson er seðlabankastjóri og formaður fjármálastöðugleikanefndar.
Ásgeir Jónsson er seðlabankastjóri og formaður fjármálastöðugleikanefndar. Vísir/Einar

Seðlabankinn varar við því að verndarstefna í alþjóðaviðskiptum muni meðal annars leiða til truflana á framboðskeðjum, sem geti haft neikvæð áhrif á fjárfestingu og efnahagsumsvif, og sömuleiðis valdið niðursveiflu á fjármálamörkuðum, að mati fjármálastöðugaleikanefndar bankans. Líklegt er að áhrifanna af slíkri sviðsmynd myndi gæta hér á landi, beint eða óbeint, og Seðlabankinn undirstrikar því mikilvægi þess að huga að viðnámsþrótti þjóðarbúsins.

Í yfirlýsingu sem fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans birti núna í morgun er sem fyrr sagt að fjármálakerfið hér á landi standi traustum fótum.

„Eiginfjár- og lausafjárstaða kerfislega mikilvægra banka er sterk og aðgengi að markaðsfjármögnun er greitt. Hins vegar er óvissa mikil í alþjóðamálum sem gæti reynt á viðnámsþrótt þjóðarbúsins,“ að því er fram kemur í yfirlýsingunni.

Verndarstefna í alþjóðaviðskiptum leiðir til truflana á framboðskeðjum og aukins viðskipta- og framleiðslukostnaðar sem getur skekkt verðmyndun á mörkuðum og haft neikvæð áhrif á fjárfestingu og efnahagsumsvif.

Þá er bætt við að verðbólga og háir vextir – verðbólgan mælist núna 4,2 prósent en meginvextir Seðlabankans er komnir í 7,75 prósent – hafi „skapað áskoranir“ fyrir heimili og fyrirtæki en efnahagsreikningar þeirra eru þó almennt sterkir. Skuldahlutföll séu jafnframt lág í sögulegum og alþjóðlegum samanburði og vanskil lítil. Þá er sparnaðarstig heimila hátt, stutt af aðhaldi þjóðhagsvarúðar- og peningastefnu.

Seðlabankinn gerir sérstaklega óbeint að umtalsefni í yfirlýsingunni sinni hótanir Donalds Trump um að setja á háa tolla gagnvart helstu viðskiptalöndum Bandaríkjanna. Þannig er bent á að slík verndarstefna í alþjóðaviðskiptum muni leiða til truflana á framboðskeðjum og aukins viðskipta- og framleiðslukostnaðar sem geti skekkt verðmyndun á mörkuðum og haft neikvæð áhrif á fjárfestingu og efnahagsumsvif.

„Það gæti jafnframt leitt til snarps viðsnúnings til hins verra á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Hætt er við að áhrifin af slíkri framvindu næðu hingað til lands með beinum eða óbeinum hætti. Í þessu ljósi er mikilvægt að viðhalda viðnámsþrótti fjármálakerfisins sem meðal annars felst í sterkri eiginfjárstöðu innlendra lánastofnana,“ segir í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar bankans.

Líkt og áður undirstrikar nefndin að rekstraráhætta fjármálainnviða sé viðvarandi áskorun og brýnir fyrir rekstraraðilum mikilvægi viðbragðsáætlana um samfelldan rekstur þeirra. „Nefndin undirstrikar einnig mikilvægi þess að áfram sé unnið að því að auka rekstraröryggi í greiðslumiðlun og þar með að komið verði á fót innlendri óháðri greiðslulausn. Samhliða verði unnið að fleiri greiðsluleiðum til að auka viðnámsþrótt.“

Þá kemur fram í lok yfirlýsingarinnar að fjármálastöðugleikanefndin hefði ákveðið að halda gildi sveiflujöfnunaraukans óbreyttu í 2,5 prósent í samræmi við stefnu sína um beitingu aukans. „Nefndin mun sem fyrr beita þeim stýritækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika þannig að fjármálakerfið geti staðist áföll, miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti.“


Tengdar fréttir

Vaxtalækkun í takt við væntingar en nefndin telur enn þörf á „þéttu“ aðhaldi

Samstaða var á meðal nefndarmanna peningastefnunefndar Seðlabankans að lækka vexti um 25 punkta, sem var í samræmi við væntingar greinenda og markaðsaðila, en samtímis háu raunvaxtastigi er verðbólgan að hjaðna á breiðum grunni og útlit fyrir að hún minnki áfram á næstu mánuðum. Nefndin undirstrikar hins vegar sem fyrr að áfram verði þörf á „þéttu taumhaldi peningastefnunnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×