Erlent

Williams og Wilmore komin aftur til jarðar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Williams aðstoðuð úr hylkinu.
Williams aðstoðuð úr hylkinu. AP/SpaceX

Geimfararnir Suni Williams og Butch Wilmore lentu örugglega undan ströndum Flórída í Bandaríkjunum í nótt, eftir níu mánaða dvöl í Alþjóðlegu geimstöðinni (ISS).

Upphaflega stóð til að Williams og Wilmore yrðu að hámarki tíu daga í geimnum.

Samkvæmt erlendum miðlum tóku höfrungar vel á móti þeim og syntu í kringum endurkomuhylkið þar til það var híft upp. Með Williams og Wilmore í för voru Bandaríkjamaðurinn Nick Hague og Rússinn Aleksandr Gorbunov en tveir félagar þeirra urðu eftir um borð í ISS.

Talsmaður NASA sagði Williams og Wilmore í góðu standi en þau voru borin út úr hylkinu, eins og alltaf er gert þegar geimfarar hafa dvalið lengi í þyngdarleysi. Þau verða skoðuð af læknum og fara í framhaldinu heim til fjölskyldna sinna.

Williams sagði í samtali við CBS í febrúar að hún hlakkaði til að koma heim.

„Ég hlakka til að sjá fjölskyldu mína, hundana mína og að hoppa í sjóinn. Það verður indælt; að koma aftur til jarðarinnar og finna fyrir jörðinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×