Norður-Makedóníumenn fóru fram á það að leiknum yrði frestað en Handknattleikssamband Evrópu, EHF, féllst ekki á það.
Leikmenn þurftu því að spila innan við sólarhring eftir einhverjar mestu hörmungar þjóðarinnar frá því að Norður-Makedónía hlaut sjálfstæði árið 1991. Sjö daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í landinu en til viðbótar við þá 59 sem eru látnir þá slösuðust meira en 150 aðrir.
Um 1.500 manns voru á tónleikum hljómsveitarinnar DNK á skemmtistaðnum Pulse í Kocani þegar eldurinn braust út í þaki byggingarinnar. Aðeins ein hurð var á svæðinu til að komast inn og út.
Skemmtistaðurinn var ekki með nein leyfi fyrir þess konar viðburði samkvæmt Panche Toshkovski, innviðaráðherra Norður-Makedóníu, og samkvæmt Reuters hafa tuttugu manns verið handteknir vegna málsins.
Mínútu þögn var fyrir leik Norður-Makedóníu við Slóveníu í gær en uppselt var á leikinn sem fram fór í Koper í Slóveníu. Mikill fjöldi stuðningsmanna Norður-Makedóníu var á leiknum og fáni þjóðarinnar áberandi.
Leikmenn léku með sorgarbönd til minningar um þá sem létust. Leikurinn sjálfur var hins vegar ekki spennandi og Slóvenía vann stórsigur, 38-27, og eru nú líkt og Íslendingar öruggir um sæti á EM 2026. Norður-Makedónía berst við Litháen og Eistland í síðustu leikjum sínum, um sæti á EM.
Dómarar í Zagreb gleymdu að minnast hinna látnu
Til stóð að hafa einnig mínútu þögn í Zagreb í gærkvöld, fyrir leik lærisveina Dags Sigurðssonar í Króatíu gegn Tékklandi, til minningar um þá sem létust í brunanum í Norður-Makedóníu.
Franskir dómarar leiksins gleymdu sér hins vegar og létu leikinn hefjast. Eftir 37 sekúndur var leikurinn hins vegar stöðvaður eftir að áhorfendur höfðu látið vel í sér heyra og var þá hægt að gera hlé til að minnast þeirra sem létust.