Handbolti

Gísli og Ómar gerðir út­lægir vegna skautasýningar

Sindri Sverrisson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson getur ekki spilað í sinni höll í Magdeburg í byrjun apríl því þar verður í gangi mikil skautasýning.
Gísli Þorgeir Kristjánsson getur ekki spilað í sinni höll í Magdeburg í byrjun apríl því þar verður í gangi mikil skautasýning. Samsett/AP/Holiday on Ice

Þýska stórliðið Magdeburg neyðist til þess að færa næsta heimaleik sinn í Meistaradeild Evrópu úr 8.000 manna höll í aðeins 2.700 manna höll, vegna glæsilegrar skautasirkussýningar.

Handball Planet fjallar um þetta og segir að seinni leikur Magdeburgar við Hauk Þrastarson og félaga í Dinamo Búkarest, í umspili um sæti í átta liða úrslitum, fari fram í Anhalt-Arena í Dessau, í klukkutíma akstursfjarlægð frá Magdeburg.

Ástæðan er sú að þegar leikurinn fer fram, 2. apríl, er GETEC Arena bókuð vegna Holiday on Ice sýningarinnar Horizons. Höllin var raunar bókuð fyrir tveimur árum, vikuna frá 31. mars næstkomandi til 6. apríl.

Magdeburg verður vonandi með þá Ómar Inga Magnússon og Gísla Þorgeir Kristjánsson í fullu fjöri eftir meiðsli þegar að einvíginu kemur. Forráðamenn félagsins reyndu að fá það í gegn að heimaleiknum yrði frestað til 8. apríl en Handknattleikssamband Evrópu hafnaði þeirri beiðni.

Einnig var sá möguleiki kannaður að skiptast á heimaleikjum við Dinamo Búkarest, svo að spilað yrði í Magdeburg en ekki í Búkarest þann 26. mars, en það gekk ekki upp.

„Við urðum því að finna nýja höll með skömmum fyrirvara. Það er ánægjulegt að hafa fengið Anhalt-Arena í Dessau sem varavöll. Yfirvöld í Dessau og kollegar okkar hjá DRHV hafa sýnt okkur frábæran stuðning í þessu mál. Hins vegar er ljóst að við munum ekki geta annað allri eftirspurn eftir miðum,“ sagði Marc-Henrik Schmedt, framkvæmdastjóri handknattleiksfélagsins Magdeburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×