Bayern München er í fínum málum eftir 3-0 sigur á Bayer Leverkusen í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta.
Bæjarar kláruðu leikinn ellefu á móti tíu eftir að Leverkusen maðurinn Nordi Mukiele fékk sitt annað gula spjald á 62. mínútu.
Harry Kane kom Bayern yfir strax á níundu mínútu leiksins þegar hann skallaði inn sendingu Michael Olise. Mikilvægt mark svo snemma leiks.
Þannig var staðan þar til á 54. mínútu þegar Jamal Musiala kom Bayern í 2-0 með marki af stuttu færi.
Bæjarar misstu reyndar markvörðinn sinn Manuel Neuer meiddan af velli á 58. mínútu þannig að þetta var ekki fullkomið kvöld.
Kane gerði það þó enn betra þegar hann kom liðinu 3-0 með marki úr vítaspyrnu á 75. mínútu. Kane fiskaði vítið sjálfur.