Handbolti

„Ég var heitur og þegar maður er heitur á maður að negla á markið“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jóhannes mundar skothöndina. Hann skoraði fimm af síðustu sex mörkum FH og endaði markahæstur með ellefu mörk.
Jóhannes mundar skothöndina. Hann skoraði fimm af síðustu sex mörkum FH og endaði markahæstur með ellefu mörk. vísir / hulda margrét

„Alltaf geggjað að vinna Haukana og hvað þá að koma svona til baka í seinni og klára þetta svona fallega eins og við gerðum“ sagði Jóhannes Berg Andrason, sem átti risaþátt í 28-25 útisigri FH í nágrannaslag gegn Haukum.

Eins og þið gerðuð eða eins og þú gerðir? Þú varst að negla þeim inn hérna undir lokin, hvernig leið þér síðustu mínúturnar?

„Ég var heitur og þegar maður er heitur á maður að negla á markið. Ég gerði það bara og þetta endaði flest inni.“

Fannstu fyrir því, því maður sá það, að allur sóknarleikur FH fór að snúast um að búa til skot fyrir þig?

„Það var svosem ekkert uppleggið þannig, ég var bara heitur í dag og þá er alltaf spilað upp á það, hver er heitur hverju sinni.“

Sagði Jóhannes um stórkostlegan kafla sinn undir lok leiks, þar sem hann skoraði að vild úr ógnarhröðum skotum, og tryggði FH sigur eftir sterka frammistöðu í seinni hálfleik, en fremur slakan fyrri hálfleik.

„Við fórum vel yfir málin í hálfleik. Mætum ekki vel gegn Haukum, það er ekki í boði og það var bara sagt í hálfleik. Það er ekki í lagi í þessum nágrannaslag og við ákváðum að snúa þessu við, sem við betur fer gerðum.“

Sigurinn styrkir stöðu FH á toppi Olís deildarinnar, þrjár umferðir eru eftir og liðið stefnir að sjálfsögðu á að verja deildarmeistaratitilinn.

„Jú það er klárlega markmiðið, við ætlum að klára þetta, það er ekki spurning.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×