36 ár frá því að bjórinn var leyfður
Samkvæmt nýrri úttekt Viðskiptaráðs á álögum ríkisins á bjór tekur ríkið tvo þriðju af söluverði. Áfengis- og skilagjald er 43 prósent, virðisaukaskattur tíu prósent og álagning ÁTVR fjórtán prósent. Álögur reiknast í hlutfalli við rúmmál vínandi í drykkjum.
Árið 1989 var bjórinn leyfður á Íslandi eftir að hafa verið bannaður í 74 ár. Enn tekur hið opinbera til sín tvo þriðju af söluverði mjöðsins í formi opinberra gjalda, skatta og álagningar þrátt fyrir að 36 ár séu liðin frá því að banninu var aflétt. Vegna þessa er áfengisverð á Íslandi það hæsta á Norðurlöndum.
Samkvæmt útreikningum Viðskiptaráðs myndi bjór án álagna ríkisins kosta 125 krónur en kostar í staðinn 379 krónur. Eftir því sem áfengið verður sterkara hækkar hlutfall ríkisins af söluverði en af léttvínsflösku er hlutur ríkisins 70% og af sterku víni tekur ríkið 90% af söluverði.

Af opinberum gjöldum er áfengisgjaldið þyngst og hlutfall ríkisins hæst á sterku áfengi. Reiknast það út frá rúmmáli vínanda í drykkjum sem útskýrir mismunandi álagningu á bjór, léttvíni og sterku áfengi. Þá leggst skilagjald á umbúðir og virðisaukaskattur sem hækkar einnig verðið auk álagningar ÁTVR á áfengi í verslunum þeirra. „Álagningin er lögbundin og nemur 18% á vörur sem innihalda 22% vínanda eða minna og 12% á vörur sem innihalda meiri vínanda en það“.
Munur á álagningu á áfengum og óáfengum drykkjum
Samkvæmt úttektinni er meðalverð á óáfengum drykkjum aðeins 40 prósent hærra á Íslandi miðað við lönd í Evrópusambandinu. Á áfengum drykkjum er meðalverðið þrefalt og er skattlagningin hérlendis fimmfalt hærri en tíðkast innan Evrópusambandsins.
Þá kemur einnig fram að meðalneysla áfengis á Íslandi hefur aukist undanfarin ár ólíkt öðrum Norðurlöndum. Ofdrykkja sé einnig mest hér af Norðurlöndunum og með því mesta sem tíðkist í Evrópu.

Vilja leggja ÁTVR niður
„Skattar á áfengi gera ekki greinarmun á þeim sem nota vöruna með ábyrgum hætti og þeim sem misnota hana. Óhófleg skattlagning er því óskilvirk leið til að draga úr misnotkun áfengis, þar sem að verðbreytingar hafa minnst áhrif á neyslu þeirra sem misnota vöruna. Skattlagning á áfengi er því fyrst og fremst tekjuöflunartæki en ekki lýðheilsutæki“.
Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að láta af óhóflegri skattlagningu á áfengi. Þá leggja þau til að ÁTVR verði lagt niður og að einokunarverslun ríkisins með áfengi verði hætt. „Ríkiseinokunarsala er tímaskekkja sem fer illa með almannafé og þjónar ekki hagsmunum neytenda“.