„Ég óska nýjum meirihluta borgarstjórnar góðs gengis og vona að þær vinni borgarbúum gagn næstu mánuði,“ sagði Hildur í færslu á samfélagsmiðlum.
Nýr borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Sósíalista, Pírata, Vinstri grænna og Flokks fólksins var kynntur í gær á blaðamannafundi í Ráðhúsi Reykjavíkur. Flokkarnir kynntu málefnasamninginn „samstarfsyfirlýsing um lífsgæði í Reykjavík.“
Engin áform um heilbrigðan húsnæðismarkað
Hildur segir að hugmyndir meirihlutans í húsnæðismálum snúi eingöngu að uppbyggingu á óhagnaðardrifnu og félagslegu húsnæði - og hjólhýsabyggð.
„Engin áform um að byggja hér heilbrigðan húsnæðismarkað fyrir meginþorra fólks - sem ekki þarf niðurgreitt húsnæði.“
„Eina mælanlega markmið sáttmálans er uppbygging 10.000 óhagnaðardrifinna íbúða í Úlfarsárdal í samvinnu við verkalýðsfélögin - en aðspurðar segja þær uppbygginguna geta tekið allt að 40 ár!“
Þá leggist meirihlutinn gegn leikskólum á vinnustöðum foreldra og tryggi þannig að biðlistar eftir plássum styttist ekki. Áherslur í samgöngumálum séu samhengislausar og ótímasettar, ljóst sé að áfram muni ríkja ófremdarástand í samgöngukerfi borgarinnar.
„Þær segjast ætla að fara vel með opinbert fé en bera svo fram hverja útgjalda tillöguna á fætur annarri - eins og þá að koma upp 100 milljóna króna selalaug í Húsdýragarðinum!“
Hildur segir að borgin hefði þurft kraftmikinn og framkvæmdaglaðan meirihluta, sem láti ekki kreddur þvælast fyrir skynsemi og raunhæfum lausnum.
Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, var á svipuðu máli í gær. Hann segir nýjan meirihlutasáttmála mikil vonbrigði fyrir Reykvíkinga, en hann óttast að meirihlutinn muni vinna mikið tjón á fjárhag borgarinnar og segir ljóst að ekki ríki mikið traust á milli flokkanna fimm.