„Það þarf að vera alveg skýrt að þetta ástand er algjörlega óviðunandi og ríkisstjórnin hefur talað mjög skýrt um að það þurfi að leysa úr því sem fyrst. Það er verið að vinna í því en svo er það þetta að skoða hvað varð til þess að þessi staða kom upp og það er mjög mikilvægt að leiða það fram,“ segir Ása Berglind Hjálmarsdóttir þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi og meðlimur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.
Áður hafði hópur stjórnarandstöðuliða lagt fram beiðni til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um sambærilega skýrslu.
Sakar Samgöngustofu um samskiptaleysi
Einar Þorsteinsson fyrrverandi borgarstjóri hefur lýst því að hann hafi ekkert formlegt erindi fengið frá Samgöngustofu - áður en tilkynning um lokun flugbrautarinnar barst - um að fella þyrfti 1400 tré, sem er á svokölluðum hindranafríum aðflugsfleti austur-vestur flugbrautarinnar.
Borgin hafi í haust fellt tré, sem mældust of há, og í kjölfarið hafi verið óskað eftir nýjum hæðarmælingum á trjánum. Þá hafi komið í ljós að fella þyrfti nokkur tré í viðbót og borgin fengið frest til þess sem hún sé að vinna eftir. Því hafi tilkynning Samgöngustofu um lokun brautarinnar komið á óvart.
„Mér finnst full ástæða til að skoða þessi samskipti og þessa ákvörðun í ljósi þess að það var búið að leggja upp einhverja tímalínu, sem var verið að vinna með. Eins og komið hefur fram þá vaxa trén ekki á þessum árstíma þannig að það er eitthvað sem gerist sem kemur borgaryfirvöldum í opna skjöldu.“
Grafalvarlegt fyrir landsbyggðina
Ýmislegt þurfi að leiða fram í málinu, sem megi ekki endurtaka sig.
„Það er algert grundvallaratriði að þessi flugbraut sé opin - skiptir ótrúlega miklu máli fyrir fólk á landsbyggðinni og alveg sérstaklega þegar kemur að sjúkrafluginu. Það er algjörlega óviðunandi að þessi staða sé komin upp og við þurfum í fyrsta lagi að laga þessa stöðu sem allra fyrst, það er verið að vinna að því, og í öðru lagi komast að því af hverju þetta gerðist eins og þetta gerðist,“ segir Ása Berglind.
„Næsta vika er kjördæmavika þannig að nefndirnar funda ekki þá en þetta verður tekið fyrir á fyrsta fundi, eftir rúma viku. Þá sjáum við betur hvernig ferill málsins verður.“
Draga þurfi fellda trjáboli úr skóginum
Fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg að gert sé ráð fyrir að felling trjánna klárist um helgina. Næstu skref í verkefninu verði metin eftir helgi. Nauðsynlegt sé að draga fellda trjáboli og afsagaðar greinar út úr skóginum og í framhaldinu huga að verklagi við næsta áfanga verkefnisins.
„Reykjavíkurborg er einnig að vinna með hugmyndir um hvernig nýta má viðinn sem fellur til en margar áhugaverðar tillögur eru til skoðunar. Þá er starfsfólk borgarinnar að vinna að áætlunum um gerð fallegra rjóða og lagningu stíga á svæðinu og sjá mörg tækifæri til að bæta enn frekar þetta vinsæla útivistarsvæði,“ segir í tilkynningunni.
Samgöngustofa muni svo taka ákvörðun um hvenær sé rétt að opna aftur austur-vestur brautina Reykjavíkurflugvelli.