Skoðun

Byggjum meira á Kjalar­nesi

Gunnar Alexander Ólafsson skrifar

Kjalarnes er einhver fallegasti staður á höfuðborgarsvæðinu þar sem íbúar njóta mikils útsýnis yfir til höfuðborgarsvæðisins, nálægðar við gullfallega nátturu þar sem létt gola leikur alla jafnan við íbúana. Á Kjalarnesi er stundaður landbúnaður, þó flestir íbúar sem búa þar starfi annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Nýlega auglýsti Reykjavíkurborg úthlutun á fjórum einbýlishúsalóðum á Kjalarnesi. Það er vel og að mínu mati má byggja miklu meira á Kjalarnesi en þessi fjögur einbýlishús og þar með fjölga íbúum og auka framboð af íbúðum. Á Kjalarnesi búa í dag um 530 manns en árið 2007 bjuggu þar yfir 1.000 manns. Það hefur orðið helmingsfækkun á síðustu 17 árum. Í þéttbýliskjarnanum á Kjalarnesi, Grundarhverfi, eru góðir innviðir eins og leikskóli, grunnskóli, íþróttahús og sundlaug auk mótttökustöð hjá Sorpu.

Þaðmá byggja miklu meira á Kjalarnesi og fleiri fjölbýlishús. Svæðið getur vel verið íbúasvæði fyrir 2.500 íbúa sem er hæfilegt svæði fyrir góða nærþjónustu eins og verslun, um leið og hægt væri að auka þjónustu við íbúa sem búa þar, t.d. með góðum íbúakjarna fyrir 65 ára og eldri sem væri samtengdur hjúkrunarheimili. Með fleiri íbúum skapast enn betri grundvöllur fyrir bættar almenningssamgöngur milli Kjalarness og annara staða á höfuðborgarsvæðinu.

Ein aðgerð styrkir frekari byggð á Kjalarnesi og það er sú staðreynd að ríkisstjórnin ætlar að klára Sundabraut sem er mögulega 6-8 ára framkvæmd. Með Sundabraut snarbatna samgöngur á milli Grundahverfisins og miðsvæðis Reykjavíkur sem gerir Kjalarnesið enn fýsilegri kost.

Ég skora á nýjan meirihluta félagshyggjuflokka í Reykjavík að bretta upp ermar og stórauka byggð á Kjalarnesi.

Höfundur er Kjalnesingur í hjarta sínu.




Skoðun

Skoðun

Sam­úð

Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar

Sjá meira


×