Það vantaði ekki mörkin í þrjá af fjórum leikjum Meistaradeildarinnar í gær. Eftir markalausan síðdegisleik röðuðu menn inn mörkum þegar Real Madrid, Paris Saint Germain og ÐSV Eindhoven tryggðu sér sæti í sextán liða úrslitum. Áður hafði markaleysið dugað Borussia Dortmund.
Kylian Mbappé var maður kvöldsins því hann skoraði þrennu í 3-1 sigri Real Madrid á Manchester City. City minnkaði muninn í blálokin en Real fór mjög sannfærandi áfram 6-3.
Paris Saint Germain vann 7-0 stórsigur á Brest og þar með 10-0 samanlagt. Sjö mismunandi leikmenn Parísarliðsins komust á blað í leiknum en staðan var 2-0 í hálfleik. Mörkin skoruðu þeir Bradley Barcola, Khvicha Kvaratskhelia, Vitinha, Désiré Doué, Nuno Mendes, Goncalo Ramos og Senny Mayulu.
PSV Eindhoven sló óvænt út ítalska félagið Juventus með 3-1 sigri í framlengdum leik. Juventus vann fyrri leikin 2-1 á Ítalíu og PSV var 2-1 yfir þegar flautað var til leiksloka í gær. Ryan Flamingo skoraði makrkið í framlengingunni sem tryggði PSV áfram en hin mörk liðsins skoruðu Ivan Perisic og Ismael Saibari. Timothy Weah jafnaði metin í 1-1 fyirr Juventus en PSV átti svar.
Hér fyrir ofan og neðan má sjá mörkin úr leikjunum en leikur Borussia Dortmund og Sporting endaði með markalausu jafntefli þar sem Dortmund fór áfram 3-0 samanlagt.