Innlent

Ekkert annað hús­næði komi til greina

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Ásthildur Lóa Þórsdóttir barna- og menntamálaráðherra segir ekkert annað húsnæði koma til greina.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir barna- og menntamálaráðherra segir ekkert annað húsnæði koma til greina. Vísir/Vilhelm

Barna- og menntamálaráðherra segir algjört neyðarástand ríkja í málum meðferðarrýma ungmenna. Neyðarvistun barna sé óásættanleg og algjört neyðarúrræði þar sem ekkert annað húsnæði komi til greina.

Um helgina greindi mbl.is frá neyðarvistun barna á lögreglustöðinni í Flatahrauni. Börnin, sem séu allt niður í þrettán ára gömul, séu látin dúsa í fangaklefa og sofa á þunnum plastdýnum.

Að sögn Ásthildar þarf aðstaðan að vera svo búin þar sem engir munir mega vera inni í rýminu sem börnin geti nýtt í að skaða sig eða aðra.

„Það sem um er að ræða er að það þarf aðstöðu fyrir börn þegar þau eru í þannig ástandi að þau geta valdið sjálfum sér eða öðrum skaða,“ segir Ásthildur Lóa Þórsdóttir, barna- og menntamálaráðherra.

Neyðarvistun fyrir ungmennin hafi áður verið á Stuðlum en þeirri álmu var lokað eftir að það kviknaði í húsinu. 

„Það er ástæðan fyrir þessu en þetta er algjört neyðarúrræði. Það er neyðarástand í þessum málum, það fer ekki á milli mála. Það skiptir líka máli að þetta rými er sem betur fer ekki mikið notað og það er ekkert barn þar lengi,“ segir Ásthildur Lóa.

Þá sé alltaf eftirlitsmaður frá Stuðlum á svæðinu fyrir barnið. Verið sé að leita annarra lausna.

„Það er verið að vinna í þessum málum núna og það þarf að fara í langtímavegferð til þess að finna lausnir á þessu. Fólk er að gera allt sem það getur í þessum málum, þetta er ekki ásættanlegt en þetta stafar meðal annars út af því að við misstum þarna rými á Stuðlum og það var ekki fyrirsjáanlegt,“ segir Ásthildur Lóa.

„Það er náttúrulega verið að leita lausna og svo er líka, hvað er annað til? Það hefur ekki ennþá fundist hentugt húsnæði fyrir það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×