Flugfélagið Play tapaði níu milljörðum á síðasta ári. Félagið réðst í umfangsmiklar breytingar á viðskiptalíkani sínu á árinu og að sögn forstjórans eru skýr merki í uppgjöri fjórða ársfjórðungs að breytingarnar séu farnar að skila árangri. Meiri áhersla er sett á sólarlandaáfangastaði frá Íslandi og minni umsvif í tengiflugi milli Norður-Ameríku og Evrópu.
Íslendingum sem fljúga með Play fjölgaði um sautján prósent á síðasta ári.
„Við erum svo sannarlega á leiðina í betri átt. Þetta er þó lakara en við ætlumst til þess að vera á þessu ári vegna viðskiptalíkansins sem við erum hreyfa. Menn segja að það taki dálítinn tíma að snúa stóru skipi, líka stórri flugvél. Þannig það tekur tíma að ná fram öllum þeim áhrifum sem við ætlum að ná,“ segir Einar Örn.
Staðan sterk
Það séu bjartir tímar framundan. Staðan sé sterkari nú en á sama tíma í fyrra.
„Tapið er í sjálfu sér aldrei gott en góðu fréttirnar eru að viðsnúningurinn er augljós með því að fjórði ársfjórðungurinn er miklu betri heldur en árið á undan,“ segir Einar Örn.
Play er ekkert að fara neitt?
„Alls ekki. Ekki nema bara upp í loft.“
Þrír vélar í langtímaútleigu
Þá hefur Play tryggt samning um langtímaútleigu þriggja flugvéla.
„Það tryggir okkur bæði jákvæða afkomu og mjög stöðuga afkomu. Þannig fyrirsjáanleiki í fjárhag félagsins er orðinn miklu, miklu meiri,“ segir Einar Örn.