Fótbolti

„Hvernig datt ykkur í hug að gera þetta?“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hér má risastóra fánann hjá stuðningsmönnum Manchester City.
Hér má risastóra fánann hjá stuðningsmönnum Manchester City. Getty/ Robbie Jay Barratt

Stuðningsmenn Manchester City mættu til leiks á móti Real Madrid í Meistaradeildinni í gærkvöldi með risastóran fána þar sem þeir skutu vel á Real Madrid.

Á þessum risastóra fána stóð „Stop Crying Your Heart Out" eða „Hættið þessu endalausa væli".

Þar var visað í viðbrögð Real Madrid þegar þeir komust að því að Vinícius Junior fékk ekki Gullknöttinn.

Allir frá Real fóru í fýlu, skrópuðu á verðlaunaafhendinguna og töluðu á eftir um að félaginu hafi verið sýnt virðingarleysi þegar gengið var framhjá þeirra manni.

Rodri, miðjumaður Manchester City, fékk Gullknöttinn en báðir áttu þeir frábært ár.

Real Madrid lenti bæði 1-0 og 2-1 undir í leiknum í gær en þeir tryggðu sér sigurinn með tveimur mörkum í lokin.

Mörkin skoruðu þeir Brahim Diaz og Jude Bellingham en umræddur Vinicius Junior lagði upp þau bæði.

„Ég sá þetta. Þegar stuðningsmenn hins liðsins gera svona þá gerir það þig bara enn ákveðnari í því að eiga góðan leik,“ sagði Vinícius við Movistar. „Þeir þekkja líka sögu okkar og allt sem við höfum afrekað í þessari keppni,“ sagði Vinícius.

Einn af þeim sem var ekki aðdáandi þessa útspils stuðningsmanna City var Jamie Carragher.

„Þetta er algjörlega út í hött. Hvernig datt ykkur í hug að gera þetta?“ sagði Carragher á CBS.

„Gerið þetta í lok leiksins ef þið hafið unnið þá og slegið þá út. Af hverju eru þið að blanda ykkur í málin svona. Ég veit ekki hvað þið haldið að þið fáið út úr slíku,“ sagði Carragher.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×