Í yfirlýsingu frá honum kom fram að ríkisstjórnin væri enn afar reið yfir ástandi gíslanna sem var sleppt síðasta laugardag. Þá sagðist hann hafa fyrirskipað ísraelska hernum að koma sér fyrir innan og utan Gasasvæðisins og að þau muni bregðast við verði gíslunum ekki skilað.
Þá sagði hann það einróma ákvörðun ríkisstjórnarinnar að sé gíslunum ekki skilað fyrir hádegi á laugardaginn verði samningi um vopnahlé rift og ísraelski herinn hefji árásir sínar á ný og láti ekki af þeim þar til Hamas verður „gjörsigrað“.

Í frétt BBC um málið kemur fram að hingað til hafi Hamas sleppt 16 ísraelskum gíslum í stað hundruð Palestínumanna sem hafa verið í fangelsi í Ísrael frá því í janúar. Hamas hafa einnig afhent fimm taílenska gísla til taílenskra stjórnvalda. Enn eru í haldi á Gasa 17 ísraelskir gíslar sem á að sleppa, samkvæmt samkomulagi, í fyrsta fasa vopnahlésins.
Þremur þeirra átti að sleppa næsta laugardag en Hamas tilkynnti að því væri frestað og vísaði til þess að Ísrael hefði rift samkomulaginu með því að banna íbúum á Gasa að snúa aftur til norðurhluta Gasastrandarinnar, með því að ráðast á Palestínubúa með flugskeytum og byssum ásamt því að hindra aðgengi mannúðaraðstoðar að svæðinu.
Segja Ísrael hafa rift samkomulaginu
Hamas sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar yfirlýsingar ísraelsku ríkisstjórnarinnar. Þar kom fram að Hamas virti enn samkomulagið sem gert var um vopnahlé. Þá vísuðu samtökin hugmyndum Donald Trump um flutning íbúa Gasa til nágrannalanda á bug. Þau segja yfirlýsingar hans fullar af kynþáttahatri og að þetta plan muni ekki ganga upp. Þá minntu þau á það í yfirlýsingu sinni að þau telji Ísrael hafa rift samkomulaginu.

Donald Trump fundaði í dag með konungi Jórdaníu um stöðuna í Miðausturlöndum. Í frétt BBC segir að þeir hafi rætt vopnahlé Ísrael og Hamas og Trump hafi, meðal annars, lýst því yfir að hann telji ólíklegt að Hamas standi við samkomulagið á laugardag og skili gíslunum sem á að skila þá.
Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hvatti í kvöld bæði Hamas og Ísrael til að standa við samkomulagið sem gert var í janúar um vopnahlé og til að hefja á ný viðræður í Doha í Katar um annan fasa samkomulagsins. Talsmaður Sameinuðu þjóðanna las yfirlýsingu Guterres á blaðamannafundi í Genf síðdegis í dag.

„Við verðum að koma í veg fyrir það með öllum tiltækum leiðum að hernaðarátök hefjist á Gasa á ný,“ sagði í yfirlýsingunni. Þá sagði hann það í forgangi hjá Sameinuðu þjóðunum að koma hjálpargögnum inn á Gasa. Þörfin þar sé enn gífurleg.