Vísir greindi frá því í október að auknar fjárheimildir upp á tæpar 150 milljónir króna vegna ófyrirséðra forsetaskipta væru lagðar til í fjáraukalögum starfandi fjármálaráðherra. Þar af er kostnaður við öryggismál og endurbætur á íbúðarhúsnæði á Bessastöðum um 86 milljónir króna.
„Ekki var gert ráð fyrir kostnaði við forsetaskipti í fjárlögum 2024 sem voru samþykkt síðasta vetur. Guðni Th. Jóhannesson, þáverandi forseti, greindi frá því í nývarpsávarpi að hann hygðist ekki gefa kost á sér í forsetakosningum sem fóru fram 1. júní.“
Í fréttinni sagði jafnframt að stærsti hluti upphæðarinnar, 86 milljónir króna, væru hugsaðar til að mæta kostnaði vegna öryggismála ásamt því sem er lýst sem nauðsynlegum endurbótum á íbúðarhúsnæði forseta og fjölskylda hans á Bessastöðum sem brýnt hafi verið að ráðast í vegna forsetaskiptanna.
Nú liggur fyrir að kostnaður vegna þessa fór talsvert fram úr fjárheimildum en bæði fréttastofa Ríkisútvarpsins sem og Heimildin greina frá þessu nú síðdegis.
Framkvæmdir við bústað forsetans fóru 40 prósent fram úr fjárheimildum. Framkvæmdirnar gengur út á hefðbundna endurnýjun lagna en þær sneru einnig að aðlögun húsnæðisins að breyttu fjölskyldumynstri forseta þegar Halla Tómasdóttir tók við embætti af Guðna Th. Jóhannessyni á síðasta ári.

Samkvæmt svari frá forsetaembættinu var stærsti einstaki kostnaðarliðurinn merktur „Innréttingar og uppsetning á þeim“ eða sem nam rúmum 45 milljónum króna. En ýmislegt annað var uppfært svo sem ísskápur og frystir, gaseldavél með ofni og uppþvottavél.
Flutningar og tryggingar á búslóð Höllu og fjölskyldu kostuðu tæpar 5,7 milljónir króna.