Skoðun

Minni lífs­líkur bráð­veikra ein­stak­linga af lands­byggðinni vegna trjá­gróðurs í Öskju­hlíð!

Hrefna Eyþórsdóttir skrifar

Erum við í alvörunni á þeim stað á Íslandi árið 2025 að tré í Öskjuhlíðinni fá að storka örlögum upp á líf og dauða hjá bráðveikum einstaklingum af landsbyggðinni?

Nú er búið að loka austur-vestur flugbraut Reykjavíkurflugvallar og er nú einungis ein flugbraut í notkun. Þessi tilskipun Samgöngustofu til ISAVIA stendur þar til 5.maí en verður framlengd ef Reykjavíkurborg hefur ekki brugðist við á þeim tíma, til þessa að tryggja flugöryggi.

Samkvæmt tilkynningu frá Miðstöð sjúkraflugs á Íslandi segir að takmörkun á umferð um Reykjavíkurflugvöll geta dregið úr lífslíkum þeirra sem flutt eru með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Árlega eru um 1000 sjúklingar fluttir með sjúkraflugi í flugvélum og um 650 af þeim eru fluttir til Reykjavíkur. Í tæplega helmingi tilfella er um að ræða sjúklinga sem þurfa nauðsynlega að komast í bráðaþjónustu á Landspítala Háskólasjúkrahúsi og þar með talið sjúklingar sem þurfa að komast í tímaháð inngrip vegna bráðra kransæðaþrenginga, heilablóðfalla og háorkuáverka, svo eitthvað sé nefnt.

Árlega greinast um 50 einstaklingar búsettir á Austurlandi með krabbamein. Megnið af þeim sækir sína meðferð til Reykjavíkur og þurfa að treysta á flugsamgöngur. Ítrekað er talað um jöfnuð m.a. varðandi aðgengi að læknisþjónustu en þarna er svo sannarlega skerðing sem getur verið upp á líf og dauða!

Fólk stoppar stutt á sjúkrahúsi vegna meðferða og fer því heim fljótt, en það er fátt betra en að geta verið heima við á milli meðferða ef heilsan leyfir En það er samt háð því að geta treyst á flugsamgöngur ef eitthvað kemur upp á.

Við treystum og skorum á stjórnvöld að grípa hér inn í og flýta fyrir þessari framkvæmd í Öskjuhlíðinni og að allir forgangsraði rétt þar sem mannslíf eru dýrmætari en tré!

Höfundur er formaður Krabbameinsfélags Austfjarða




Skoðun

Sjá meira


×