Handbolti

Eyja­menn í undan­úr­slit eftir vítakastkeppni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sigtryggur Daði var frábær í liði ÍBV í dag.
Sigtryggur Daði var frábær í liði ÍBV í dag. Vísir/Hulda Margrét

ÍBV tryggði sér í dag sæti í úrslitahelgi Powerade-bikarsins í handbolta með dramatískum sigri gegn FH eftir tvríframlengdan leik og vítakeppni.

Eins og svo oft áður þegar þessi lið mætast var boðið upp á jafnan og skemmtilegan leik. Liðin skiptust á að hafa forystuna og munurinn varð aldrei meiri en þrjú mörk í fyrri hálfleik. Gestirnir frá Hafnarfirði leiddu með einu marki þegar liðin gengu til búningsherbergja, staðan 14-15.

Það sama var svo uppi á teningnum í síðari hálfleik. Liðin héldust að mestu í hendur, ef frá er talið þegar FH-ingar náðu þriggja marka forystu í stöðunni 18-21.

Dramatíkin hélt áfram út venjulegan leiktíma, en FH-ingar náðu eins marks forystu þegar um 15 sekúndur lifðu leiks. Eyjamenn tóku leikhlé og jöfnuðu metin í 29-29 þegar fimm sekúndur voru eftir og því þurfti að grípa til framlengingar.

Eyjamenn höfðu yfirhöndina í fyrri hálfleik framlengingar, en í þeim síðari tókst FH-ingum að jafna metin á ný. Staðan að fyrri framlengingu lokinni 33-33 og því þurfti að framlengja öðru sinni.

Ekki tókst að skera úr um sigurvegara í seinni framlengingunni. Símon Michael Guðjónsson jafnaði metin fyrir FH í 39-39 um það leyti sem leiktíminn rann út og því var það aðeins vítakastkeppni sem gat skorið úr um sigurvegara.

Í vítakeppninni kom hins vegar munur á liðunum í ljós. Garðar Ingi Sindrason og Jóhannes Berg Andrason klikkuðu báðir á sínum vítum fyrir FH, en Eyjamenn skoruðu úr öllum sínum og unnu þar með dramatískan sigur.

Eyjamenn eru þar með komnir í undanúrslit Powerade-bikars karla, en FH situr eftir með sárt ennið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×