Elez hélt úti síðu á X undir nafninu @nullllptr, þar sem hann mun ítrekað hafa kastað fram rasískum ummælum og talað vel um kynbótaaðferðir. Í frétt Wall Street Journal, þar sem hann var tengdur síðunni, kemur fram að Elez virðist vera sérstaklega illa við Indverja. Kallaði hann til að mynda eftir því að hatur gegn Indverjum yrði normaliserað.
Hann skrifaði einnig að ekki væri hægt að greiða honum fyrir það að gifta sig út fyrir kynstofn sinn og stærði sigi af því að hafa verið rasisti „áður en það var kúl“.
Starfsmenn DOGE, sem margir eru ungir karlmenn, hafa gengið hart fram í niðurskurði hjá alríkinu og þykir vinna þeirra mjög umdeild.
Sjá einnig: Starfsmenn DOGE tóku yfir USAID og læstu starfsmenn úti
Elez sjálfur hefur verið viðloðinn dómsmál vegna aðgengi hans að greiðslukerfi fjármálaráðuneytisins sem inniheldur persónuupplýsingar fjölmargra Bandaríkjamanna. Dómari úrskurðaði í gærmorgun að Elez mætti hafa aðgang að kerfinu en takmarkaði hvernig hann mætti dreifa upplýsingum þaðan áfram.
Hann sagði þó af sér í gærkvöldi, eftir að fyrirspurn um áðurnefnda X-síðu var send til Hvíta hússins.
Musk vill að fréttakonan verði rekin
Í frétt WSJ segir að Elez hafi unnið fyrir Musk hjá bæði SpaceX og X. Hjá geimfyrirtækinu vann hann við Starlink-gervihnetti og við gervigreind hjá X.
Musk hvatti fólk til að sækja um hjá DOGE í lok síðasta árs en svo virðist sem flestir sem hafi verið ráðnir séu ungir menn sem deili lífsskoðunum auðjöfursins.
Scott Bessent, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, varði starfsmenn DOGE í viðtali í gær og sagði þá mjög þjálfaða fagmenn.
Musk, sem hefur ítrekað haldið því fram að hann sé mjög svo hlynntur algeru tjáningarfrelsi, hefur kallað eftir því að blaðakonan sem tengdi Elez við síðuna umdeildu verði rekin úr starfi sínu hjá Wall Street Journal vegna fréttaflutnings hennar.
Hann hefur einnig opnað könnun á síðu sinni á X, samfélagsmiðli sínum, þar sem hann spyr hvort hann eigi að ráða Elez aftur til DOGE.