Erlent

Segja stefnt að því að fækka starfs­mönnum úr 10.000 í 300

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Efnt var til mótmæla í Washington í vikunni vegna ákvörðunar stjórnvalda um að skera niður USAID.
Efnt var til mótmæla í Washington í vikunni vegna ákvörðunar stjórnvalda um að skera niður USAID. Getty/Chip Somodevilla

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hyggjast fækka starfsmönnum U.S. Agency for International Development (USAID) úr 10 þúsund í tæplega 300. Þetta hefur New York Times eftir heimildarmönnum.

Stofnunin hefur sinnt fjölda mikilvægra mannúðarverkefna víða um heim en einn af fyrstu gjörningum Donald Trump Bandaríkjaforseta í embætti var að fyrirskipa stöðvun flestra þeirra. 

Yfirvöld segja stofnunina áfram munu sinna mannúðaraðstoð en samkvæmt umfjöllun New York Times hafa yfirmenn USAID barist fyrir vægari niðurskurði og lagt fram langa lista yfir starfsmenn sem þeir telja nauðsynlega til að sinna bráðaverkefnum.

Einræðisherrar og öfgamenn fagni

Utanríkisráðherrann Marco Rubio sagði í vikunni að málið snérist ekki um að láta af alþjóðlegri aðstoð heldur að ná tökum á starfseminni. Fjöldi starfsmanna hefur verið settur í leyfi, kallaður aftur heim og þá hefur nær öllum verktakasamningum verið sagt upp.

Tvö verkalýðsfélög hafa höfðað mál vegna breytinganna, sem þau segja meðal annars brjóta gegn stjórnarskránni.

Samantha Powers, sem fór fyrir USAID í stjórnartíð Joe Biden, segir í skoðanagrein í New York Times að um sé að ræða eitt versta og kostnaðarsamasta utanríkismálaklúður í sögu Bandaríkjanna.

Milljónum lífa hafi verið stofnað í hættu, þúsundum bandarískra starfa og margra milljarða dala fjárfestingu í litlum fyrirtækjum og smábýlum. Þá hafi verið grafið undan þjóðaröryggi og áhrifum Bandaríkjanna, á sama tíma.

Einræðisherrar og öfgamenn fagni hins vegar ákaft.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×