Innlent

Fyrr­verandi ráð­herra Við­reisnar for­dæmir orð Sigur­jóns

Jakob Bjarnar skrifar
Sigurjón Þórðarson segir að endurskoða beri fjárframlög til Morgunblaðsins í kjölfar fréttaflutnings blaðsins af málefnum Flokks fólksins. Þetta þykir Þorsteini Víglundssyni blöskranleg ummæli af hálfu valdamanns.
Sigurjón Þórðarson segir að endurskoða beri fjárframlög til Morgunblaðsins í kjölfar fréttaflutnings blaðsins af málefnum Flokks fólksins. Þetta þykir Þorsteini Víglundssyni blöskranleg ummæli af hálfu valdamanns. vísir/aðsend

Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi ráðherra Viðreisnar, fordæmir fortakslaust orð Sigurjóns Þórðarsonar, þingmanns ráðherra Flokks fólksins um að skoða beri fjárframlög til Morgunblaðsins í kjölfar umfjöllunar þeirra.

„Það væri óskandi að Flokkur fólksins fari að sýna það í verki að þau skilji þá ábyrgð sem fylgir því að vera við völd. Hótanir um skerðingu opinberra styrkja til fjölmiðla vegna ósættis við umfjöllun þeirra eru óásættanleg vinnubrögð af hálfu stjórnmálamanna í lýðræðisríki,“ segir Þorsteinn á Facebook-síðu sinni.

Hann bætir því við að þetta sé því miður ekki fyrsta dæmið um slík vinnubrögð af hálfu flokksins á þeim skamma tíma sem liðinn er frá því hann tók sæti í ríkisstjórn.

Sigurjón, sem auk þess að vera þingmaður Flokks fólksins er formaður atvinnuveganefndar, telur vert að endurskoða fjölmiðlastyrki til Morgunblaðsins í kjölfar umfjöllunar blaðsins um málefni Flokks fólksins.

Þetta sagði hann í viðtali á Útvarpi Sögu:

„Það er líka kominn tími til þess að endurskoða einfaldlega fjárframlög til Morgunblaðsins tel ég vera vegna þess að við erum að láta þarna gríðarlegar upphæðir inn í blað sem er í rauninni að reka erindi gegn almannahagsmunum og fyrir hagsmunum örfárra auðmanna. Ef við erum hér að hreyfa örlítið við sjávarútvegskerfinu þá standa á okkur öll spjót.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×