Eftir vaxtaákvörðunina í morgun, sem er sú fyrsta eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum, standa meginvextir bankans núna í 8 prósent – þeir lækkuðu áður um samanlagt um 75 punkta í október og nóvember í fyrra – en í yfirlýsingu peningastefnunefndar er tekið fram að allir fimm nefndarmenn hafi studd ákvörðun um 50 punkta lækkun.
Hægt hefur á vexti eftirspurnar í takt við þétt taumhald peningastefnunnar og spennan í þjóðarbúinu er í rénun.
Það er nýlunda að tekið sé fram í yfirlýsingunni hver afstaða nefndarmanna hafi verið til vaxtaákvörðunarinnar en þær upplýsingar hafa jafnan birst þremur vikum síðar þegar fundargerðin er birt.
Peningastefnunefndin bendir á að verðbólgan hafi haldið áfram að hjaðna – hún hefur lækkað úr 4,8 í 4,6 prósent frá síðasta fundi í nóvember – og þá sé undirliggjandi verðbólga einnig að lækka, og ekki verið minni í þrjú ár. Útlit er fyrir áframhaldandi hjöðnun verðbólgu á næstu mánuðum.
Umfang vaxtalækkunarinnar er sem fyrr segir í takt við væntingar en mikill meirihluti þátttakenda í könnun Innherja, sem var birt síðasta mánudag, gerði ráð fyrir 50 punkta lækkun. Spár allra greiningardeilda bankanna hljóðuðu sömuleiðis upp á 50 punkta lækkun, nema í tilfelli Arion sem vænti þess að lækkunin yrði 25 punktar.
Í rökstuðningi margra þátttakenda í könnun Innherja var bent á að önnur ákvörðun en 50 punkta lækkun myndi „skjóta skökku við“ með hitastigið á raunstýrivöxtunum á nákvæmlega sama stað nú og þegar peningastefnunefndin kom síðast saman í nóvember. Það kynni að vekja áhyggjur af um óskýrleika í skilaboðum frá nefndinni.
Fram kemur í yfirlýsingu nefndarinnar í morgun, sem er stutt og fremur hlutlaus varðandi framsýna leiðsögn, að hægt hafi á vexti eftirspurnar í takt við þétt taumhald peningastefnunnar og spennan í þjóðarbúinu sé í rénun. „Dregið hefur úr umsvifum á húsnæðismarkaði og hægt á hækkun húsnæðisverðs. Vísbendingar eru þó um að krafturinn í þjóðarbúinu sé meiri en bráðabirgðatölur þjóðhagsreikninga gefa til kynna og áfram mælist nokkur hækkun launakostnaðar,“ segir nefndin.
Í nýju hefti Peningamála Seðlabankans er birt uppfærð þjóðhagsspá en samkvæmt henni hafa verðbólguhorfur lítið breyst frá síðustu spá í nóvember. Búist er við að verðbólga minnki áfram en verði lítillega meiri á næstu fjórðungum en áður var talið. Verðbólguhorfur á seinni hluta spátímans eru hins vegar svipaðar og áfram er spáð að verðbólga verði komin í markmið um mitt næsta ár. Gert er ráð fyrir að verðbólgan verði að meðaltali 3,6 prósent á þessu ári.
Samkvæmt spá Seðlabankans er núna áætlað að það hafi verið um 0,4 prósenta samdráttur í landsframleiðslu í fyrra – áður var spáð 0 prósent vexti – og þá er hagvaxtarspá þessa árs sömuleiðis lækkuð lítillega, eða úr 1,9 í 1,6 prósent. Á sama tíma er ráðgert að launakostnaður á framleidda einingu aukist um 5,2 prósent á árinu 2025 en áður var spáð hækkun upp á 4 prósent.
![](https://www.visir.is/i/3D97F64DFFA83EAB8E31966DBFE6DF99D02C4DF65354B1C490A896812AA9D9DC_390x0.jpg)
Peningastefnunefndin tekur fram að þótt verðbólga hafi hjaðnað og verðbólguvæntingar lækkað sé enn verðbólguþrýstingur til staðar. Þess vegna kalli það á áframhaldandi „þétt taumhald“ peningastefnunnar – sem hefur verið talið jafngilda liðlega fjögurra prósenta raunvaxtastigi á þann mælikvarða sem Seðlabankinn horfir helst til – og „varkárni“ við ákvarðanir um næstu skref. Við bætist aukin óvissa í alþjóðlegum efnahagsmálum.
Í lok yfirlýsingarinnar segir nefndin, líkt og hún hefur jafnan áður gert, að mótun peningastefnunnar næstu misseri mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.
Tiltölulega stutt er í næsta fund peningastefnunefndar, en hann mun fara fram miðvikudaginn 21. mars næstkomandi.