„Já. Á toppnum matreiðslubókin Létt og loftsteikt í Air Fryer eftir Nathan Anthony í þýðingu matargyðjunnar Nönnu Rögnvaldardóttur. Hún trónir á toppnum,“ segir Bryndís Loftsdóttir framkvæmdastjóri Fibut.
Samkvæmt þessum lista hefur þjóðin sannarlega tekið loftsteikingarofnana upp á arma sína og virðast lítil takmörk á því hvað hægt er að galdra fram úr þessum græjum.
„Þetta er fyrsta matreiðslubókin sérstaklega fyrir þessa eldunaraðferð sem kemur út á íslensku og miðað við vinsældir þessarar eldunaraðferðar eiga þær örugglega eftir að verða fleiri,“ segir Bryndís.
Bóksölulistinn er afar hnýsilegur á að líta. Almanak Háskóla Íslands situr í öðru sæti líkt og oft áður á þessum árstíma og splunkuný kiljuútgáfa einnar söluhæstu skáldsögu síðasta árs, Í skugga trjánna, eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur, situr í þriðja sæti. Bóksalar völdu hana einmitt skáldsögu ársins í fyrra og er nýjasta skáldsaga Guðrúnar örugglega sú sem hefur notið mestrar hylli bókakaupenda. Óhætt er að segja að hún hafi slegið í gegn á síðasta ári.
Þá er athyglisvert að sjá bók Páls Valssonar, Vigdís - Kona verður forseti, bók sem kom út fyrir býsna löngu (2009) og má örugglega rekja áhuga lesenda til rómaðra þátta um Vigdísi sem voru á dagskrá RÚV fyrir skömmu. Benjamín Dúfa Friðriks Erlingssonar virðist svo vera á leslista einhvers menntaskólans að þessu sinni.
Uppfært 5/2 klukkan 10:55
Athugist. Ranglega er haft eftir Bryndís að Létt og loftsteikt í Air Fryer sé fyrsta bókin sem fjallar um eldamennsku í loftsteikningarofni. Tómas Hansson setti sig í samband við Vísi og vildi vekja athygli á því að kona hans, Erla Steinunn Árnadóttir, hafi skrifað og gefið út bók sem heitir Eldað í Air Fryer. „Mér finnst mjög hallað á hana í þessum fréttaflutningi,“ segir Tómas. Sú bók hefur nú þegar selst í þúsund eintökum en hún kom út fyrir um tveimur árum. Og er þá þeirri ábendingu til haga haldið.

Bóksölulistinn
- 20 söluhæstu bækurnar í janúar:
1. Létt og loftsteikt í Air Fryer - Nathan Anthony, þýð. Nanna Rögnvaldardóttir
2. Almanak Háskóla Íslands 2025 - Gunnlaugur Björnsson og Páll Jakobsson
3. Í skugga trjánna - kilja - Guðrún Eva Mínervudóttir
4. Leynigesturinn - Nita Prose, þýð. Magnea J. Matthíasdóttir
5. Börn í Reykjavík - Guðjón Friðriksson
6. Kóngurinn af Ósi: Kóngsríkið 2 - Jo Nesbø, þýð. Bjarni Gunnarsson
7. Ótrúlega skynugar skepnur - Shelby van Pelt, þýð. Nanna Brynhildur Þórsdóttir
8. Ferðalok - kilja - Arnaldur Indriðason
9. Úr myrkrinu - kilja - Ragnheiður Gestsdóttir
10. Gestir - Hildur Knútsdóttir
11. Stjáni og stríðnispúkarnir 12 - Gistipúkar - Zanna Davidson, þýð. Jónína Ólafsdóttir
12. Tjörnin - Rán Flygenring
13. Litlir lærdómshestar-Stafir - Elisabeth Golding, þýð. Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
14. Horfin athygli - Johann Hari, þýð. Hugrún H. Kristjánsdóttir og Arnþór Jónsson
15. Atli eignast gæludýr - Birgitta Haukdal
16. Iceguys - Heiða Þorbergsdóttir
17. Sjálfsræktardagbókin 2025 - Inga, Helga og Margrét
18. Benjamín dúfa - Friðrik Erlingsson
19. Bluey - 5 mínútna sögur - Joe Brumm,þýð. Andri Karel Ásgeirsson
20. Vigdís - Kona verður forseti - Páll Valsson