Viðskipti innlent

Kjarninn farinn úr Heimildinni

Jakob Bjarnar skrifar
Arnar Þór í réttarsal en hann, ásamt Þórði Snæ ritstjóra Heimildarinnar, höfðuðu mál á hendur Páli Vilhjálmssyni bloggara vegna ásakana þess síðarnefnda á hendur þeim tveimur; en þeir vildu meina að um væri að ræða áburð um refsiverða og siðferðislega ámælisverða blaðamennsku.
Arnar Þór í réttarsal en hann, ásamt Þórði Snæ ritstjóra Heimildarinnar, höfðuðu mál á hendur Páli Vilhjálmssyni bloggara vegna ásakana þess síðarnefnda á hendur þeim tveimur; en þeir vildu meina að um væri að ræða áburð um refsiverða og siðferðislega ámælisverða blaðamennsku. vísir/vilhelm

Arnar Þór Ingólfsson blaðamaður hefur söðlað um, hann er hættur á Heimildinni og er hann nú orðinn starfsmaður þingflokks Samfylkingarinnar.

Þetta kemur fram í starfsmannaskrá þingsins en Arnar Þór bætist þar við hóp fjögurra kvenna sem eru skráðar starfsmenn Samfylkingarinnar: Aldís Mjöll Geirsdóttir, Ásta Guðrún Helgadóttir, Rakel Pálsdóttir og Sonja Huld Guðjónsdóttir. 

Samkvæmt heimildum Vísis hefur Erla María Markúsdóttir blaðamaður einnig sagt upp störfum á Heimildinni. Þá er Sunna Ósk Logadóttir, sem stóð vaktina sem fréttastjóri Mbl.is áður en hún færði sig til Kjarnans, að vinna uppsagnarfrest sinn.

Vísir náði ekki tali af Arnari Þór nú í morgun þrátt fyrir tilraunir. Starfsmaður Alþingis kannaðist í fyrstu ekki við manninn en eftir að hafa grennslast fyrir um málin kom upp úr dúrnum að hann er vissulega starfsmaður og sást til hans í þinginu í morgun. 

Arnar Þór starfaði lengi undir ritstjórn Þórðar Snæs Júlíussonar, bæði á Kjarnanum og síðar Heimildinni. Þórður er nú er framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar. Þórður Snær bauð sig fram fyrir Samfylkinguna, náði kjöri en dró framboð sitt svo til baka eftir fjaðrafok sem þyrlaðist upp um gömul bloggskrif hans. Þórður Snær yfirgaf Heimildina á síðasta ári vegna ósættis við Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur, hinn ritstjóra Heimildarinnar, og sneri sér að stjórnmálum.

Er þá heldur betur tekið að kvarnast úr „Kjarnanum“ í Heimildinni sem varð til við sameiningu Kjarnans og Stundarinnar. Því má svo við bæta að Aðalsteinn Kjartansson er síðasti blaðamaðurinn sem tengist skrifum um „Skrímsladeild Samherja“  sem enn starfar á Heimildinni.

Sameinaða útgáfufélagið, sem rekur Heimildina, á þó von á liðsstyrk þegar gengið verður frá yfirvofandi kaupum félagsins á Mannlífi. Elín G. Ragnarsdóttir, stjórnarformaður Sameinaða útgáfufélagsins, tjáði fréttastofu í desember að tveir blaðamenn Mannlífs, þeir Björgvin Gunnarsson og Brynjar Birgisson, fylgdu með í kaupunum á Mannlífi.

Arnar Þór er á 34. aldursári og á að baki störf í fjölmiðlum hjá Austurfrétt á Egilsstöðum, Morgunblaðinu og svo Kjarnanum sem síðar rann saman við Heimildina. Arnar Þór er stjórnmálafræðingur að mennt og lauk meistaranámi frá Árósaháskóla.


Tengdar fréttir

Óþægilegt að sitja undir ásökunum um þjófnað og byrlun

Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður á Heimildinni, áður Kjarnanum, segist hafa verið mjög hissa þegar Páll Vilhjálmsson bloggari og kennari sakaði hann og kollega hans um að hafa byrlað skipstjóra Samherja og stolið af honum síma til að geta skrifað fréttir. Páll mætti ekki í dómsal í morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×