Þetta staðfestir Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við fréttastofu. Hún segir að Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis, hafi úrskurðað að með vísan í reglur forsætisnefndar muni Sjálfstæðisflokkurinn halda þingflokksherbergi sínu.
Fjallað var um í gær að þingflokkur Samfylkingar, sem nú er sá stærsti á þingi, hefði gert kröfu um að fá stærsta þingflokksherbergið í Alþingishúsinu – herbergi sem hefur hýst þingflokk Sjálfstæðisflokkinn í 84 ár, eða frá 1941. Í alþingiskosningunum í nóvember tryggði Samfylkingin sér flest þingsæti, eða fimmtán, en Sjálfstæðisflokkurinn fjórtán.
Hildur sagði við Vísi í gær að engin ástæða væri fyrir því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins yfirgæfi herbergið sem hefði bæði tilfinningalegt og sögulegt gildi fyrir Sjálfstæðismenn. Hildur sagði í gamansömum tón að skipulagðar yrðu vaktir um setuverkfall í þingflokksherberginu, ef færi svo að þingflokknum yrði gert að fara.
Sjá má frétt um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 í spilaranum að neðan.
Enginn fautaskapur
Hildur segir það ánægjulegt að skrifstofustjóri þingsins hefði tekið undir athugasemdir sínar í málinu.
„Ég auðvitað fagna þessari niðurstöðu. Enda er hún rétt. Reglurnar eru skýrar og teknar í þverpólitískri sátt einmitt til þess að valdhafar hverju sinni geti ekki komið fram með hverjum þeim fautaskap sem þeim sýnist hverju sinni.
Ég hef auðvitað mikinn skilning á að mörgum þyki skrýtið að verið sé að eyða tíma í varðstöðu um eitthvað herbergi en hér var fyrst og fremst um að ræða varðstöðu fyrir hefðum, reglum og virðingu fyrir lýðræðislegri valddreifingu sem er kjarninn í störfum þingsins. Þannig að þetta skiptir meira máli og er meira prinsippmál en kannski lítur út fyrir að vera þannig að ég er bara ljómandi kát með þetta,“ segir Hildur í samtali við fréttastofu.