Handbolti

Stjörnukonur komnar í gang

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tinna Sigurrós Traustadóttir skoraði níu mörk í sigri Stjörnunnar á Gróttu.
Tinna Sigurrós Traustadóttir skoraði níu mörk í sigri Stjörnunnar á Gróttu. vísir/jón gautur

Stjarnan vann þriggja marka sigur á Gróttu, 31-28, í Olís deild kvenna í dag. Þetta var annar sigur Garðbæinga í röð og þriðji sigurinn í síðustu fjórum leikjum.

Tinna Sigurrós Traustadóttir og Eva Björk Davíðsdóttir voru í stuði hjá Stjörnunni og skoruðu samtals sautján mörk í leiknum í dag. Tinna gerði níu og Eva Björk átta.

Mikið var skorað í fyrri hálfleik en staðan að honum loknum var 19-15, Stjörnukonum í vil.

Þessu forskoti ógnaði Grótta aldrei í seinni hálfleik og Stjarnan vann að lokum með þremur mörkum, 31-28.

Embla Steindórsdóttir skoraði fimm mörk fyrir Stjörnuna og Vigdís Arna Hjartardóttir fjögur. Aki Ueshima varði þrettán skot (33 prósent).

Ída Margrét Stefánsdóttir bar af í liði Gróttu og skoraði tólf mörk. Karlotta Óskarsdóttir bætti fimm mörkum við. Markverðir Seltirninga vörðu aðeins samtals sjö skot (átján prósent).

Þetta var fjórða tap Gróttu í röð en liðið er enn með fjögur stig á botni deildarinnar. Stjarnan er í 4. sæti með tíu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×