Þeir Einar Jónsson, þjálfari Fram og Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka sem og fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaður, voru sérfræðingar þáttarins.
Aðspurður sagði Einar tilfinningar sínar varðandi frammistöðu íslenska landsliðsins í leiknum vera beggja blands.
„Bara svona já og nei. Fínt að vinna þetta, en mótstaðan var engin. Þetta lið væri í basli með að halda sér í Olís deildinni. Mér fannst fyrri hálfleikurinn ágætur, ekki mikið meira en það. Seinni hálfleikurinn var síðan bæði leiðinlegur og lélegur. Hræðir mig svolítið fyrir framhaldið, ég verð að segja það.“
„Við vorum á pari“
Heilt yfir var Ásgeir Örn sáttur með frammistöðu íslenska landsliðsins.
„Þrettán marka sigur, við fáum á okkur tuttugu og eitt mark. Jú ég held við getum alveg verið þokkalega sáttir með þetta. Ég er hins vegar alveg sammála Einari, þetta var arfaslakt og illa skipulagt lið sem við vorum að mæta. Bara lélegir.“
„Ég var einmitt að hugsa það yfir leiknum á rétt tæplega fertugustu mínútu að þetta væri bara helvíti fínt. Ef við myndum halda dampi yrði ég helvíti sáttur með þetta. En þá kom bara helvíti vondur kafli. Fórum úr fjórtán marka forystu niður í níu, fimm sóknir í röð sem við skorum ekki og þeir skora fimm í röð. Mér fannst þetta mjög lélegt. En við náðum aðeins að slá frá okkur. Það er erfitt að halda þetta út. Við vorum á pari með þessum þrettán marka sigri.“

„Þetta sýndi mér það ekki“
Fyrir fram hefur lokaleiknum við Slóveníu verið stillt upp sem úrslitaleik riðilsins. Formsatriði sé að vinna Grænhöfðaeyjar og Kúbu. Einar er að mörgu leiti til sammála Ásgeiri en segir núverandi landslið ekki geta tileinkað sér þá hugsun sem Ásgeir Örn og liðsfélagar hans í fyrra landsliði gátu tileinkað sér.
„Ég skil alveg hvað Ásgeir er að fara,“ bætti Einar svo við. „Með allan sinn landsliðsferil að baki, sem var frábær, og hann spilaði í frábæru landsliði. Lið sem hefði alveg geta labbað úr svona leik og hugsað með sér: „Við gerðum okkar og vitum alveg hvaða leikur það er sem á endanum skiptir máli.“ Ég skil alveg hvaðan hann kemur. En mér finnst þetta landslið sem við höfum núna ekki hafa efni á þessu. Þeir verða sýna okkur það, í hverjum einasta leik, að það séu framfarir. Að þeir séu á réttri leið og að það sé eitthvað að fara gerast framu. Þetta sýndi mér það ekki.“
Hægt er að hlusta á ítarlegt uppgjör þeirra félaga í Besta sætinu hér fyrir neðan. Þáttinn má finna á helstu hlaðvarpsveitum. Næsti leikur Íslands á HM er á laugardaginn kemur gegn Kúbu. Helstu fréttir af HM má finna hér á Vísi daglega.