Í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg segir að þar hafði ræsi undir veginn stíflast svo flæddi yfir hann á stórum kafla. Ferðafólk á tveimur bílum hafði lent í vatninu og komst það út úr bílunum og upp á þak þeirra, en þeir voru nánast á kafi í vatninu þegar björgunarsveitir komu á vettvang.

Þorsteinn Þorsteinsson formaður Björgunarsveitarinnar Heiðars á Varmalandi segir að þegar þá bar að garði hafi þeir séð bíl sem var um tuttugu til þrjátíu metra fyrir utan veginn. Þar voru tveir menn uppi á þaki en bíllinn var við það að fara í kaf. Þriðja farþeganum hafði tekist að komast á þurrt af sjálfsdáðum að sögn Þorsteins og sömu sögu er að segja af öðrum bíl sem einnig lenti í vatnselgnum. Mennirnir tveir sem voru á þakinu komust hinsvegar hvergi. „Þá förum við bara í það að fara í línu og ég skellti mér til sunds. Þetta var það djúpt að ég botnaði aldrei á leiðinni út í bílinn,“ segir Þorsteinn í samtali við fréttastofu og bætir við að hann sé 190 sentimetrar á hæð. Hann kom svo böndum á mennina tvo sem voru dregnir í land.

Þorsteinn segir að aðgerðin hafi öll heppnast vel og upp úr hálf sex í morgun voru allir 3 komnir í sjúkrabíl til aðhlynningar en að sögn Þorsteins voru mennirnir tveir á toppnum orðnir mjög stressaðir og kaldir þegar komið var að þeim.
Björgunarfólk hafði þá jafnframt lýst vel upp nágrennið til að tryggja að engir aðrir væru þar ásamt því að veiða upp hluti sem flotið höfðu úr bílunum.
Í kjölfarið var Holtavörðuheiði lokað vegna vatnavaxta,“ segir í tilkynningunni.


