Handbolti

Vand­ræði sonarins björguðu sænska landsliðsmanninum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albin Lagergren í leik með sænska landsliðinu á Ólympíuleikunum í París.
Albin Lagergren í leik með sænska landsliðinu á Ólympíuleikunum í París. Getty/Lars Baron

Albin Lagergren var liði sænska handboltalandsliðsins í gær sem vann það íslenska í síðasta æfingaleik sínum fyrir heimsmeistaramótið í handbolta. Það munaði þó litlu að hann hefði aldrei fengið tækifæri til þess að spila á mótinu.

Lagergren er liðsfélagi Gísla Þorgeirs Kristjánssonar og Ómars Inga Magnússonar hjá Magdeburg. Hann er því búsettur í Magdeburg þar sem árásin var gerð á jólamarkaðinn stuttu fyrir jól.

Lagergren sagði frá því hversu litlu munaði að hann og fjölskylda hans hefði verið á staðnum þear bíll keyrði inn í hóp gesta á jólamarkaðnum.

Sex létust og sextíu slösuðust. Íslensku landsliðsmennirnir sluppu líka en Gísli Þorgeir Kristjánsson og kærasta hans Rannveig Bjarnadóttir búa í þrjú hundruð metra fjarlægð frá markaðnum. Tilviljun réði því að þau fóru ekki á jólamarkaðinn þetta kvöld.

Lagergren þakkar syni sínum fyrir það að fjölskyldan var ekki á staðnum.

„Við hættum við að fara þangað á síðustu stundu,“ sagði Lagergren við Aftonbladet.

„Ég og liðsfélagi minn ætluðum að fara þangað saman með fjölskyldur okkar. Sonur minn [Ben er þriggja ára] festi sig í lestarteinunum í Ikea og okkur fannst klukkan vera orðin of margt þegar hann var loksins laus,“ sagði Lagergren.

„Við hættum því við á síðustu stundu en ætluðum að fara frekar daginn eftir,“ sagði Lagergren.

„Ég er þakklátur fyrir það núna. Við heyrðum af árásinni um kvöldið og það var mikið áfall. Eftir það þá vildi maður bara faðma fjölskylduna sína,“ sagði Lagergren.

„Þegar svona hlutir gerast þá kemur vel í ljós að handboltinn er ekki það mikilvægast í heiminum. Þetta voru erfiðir dagar fyrir alla borgina og við tókum vel eftir því. Við fórum á þessar minningarathafnir og sáum vel hvað þetta snerti fólk,“ sagði Lagergren.

Albin Lagergren hefur skorað 355 mörk í 119 landsleikjum þar af eitt þeirra í sigrinum á Íslandi í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×