Elvar er að jafna sig af meiðslum og hefur ekki tekið fullan þátt í fyrstu æfingum landsliðsins sem kom saman til æfinga á Íslandi fyrir þremur dögum. Hann ræddi við Vísi í Víkinni á föstudaginn og má sjá viðtalið í spilaranum hér að neðan.
Ísland byrjar HM á leik við Grænhöfðaeyjar eftir ellefu daga, fimmtudagskvöldið 16. janúar, og þá ætti Elvar að vera klár í slaginn. Hann vonast meira að segja til að geta spilað vináttulandsleikina við Svíþjóð ytra, 9. og 11. janúar.
Stefnir á leikina við Svíþjóð
„Það kom smávægileg tognun í rassvöðvann í næstsíðasta leiknum [með Melsungen í desember]. Ég þurfti að hætta í þeim leik og spilaði ekki síðasta leikinn. Svo kom í ljós að þetta var fyrstu gráðu tognun, sem þýðir 2-3 vikur. Vonandi verð ég kominn í bolta [í vikunni sem hófst í dag],“ sagði Elvar í viðtali við Aron Guðmundsson.
„Ég tel HM ekki vera í hættu. Ég ætla að reyna að ná þessum Svíaleikjum til að komast í gang,“ bætti hann við en fyrri leikurinn við Svía er í Kristianstad á fimmtudaginn og sá seinni í Malmö næsta laugardag.
Lið Elvars komið mörgum á óvart
Elvar er ekki bara lykilmaður í landsliðinu heldur einnig hjá Melsungen sem er með fjögurra stiga forskot í baráttunni um þýska meistaratitilinn. Elvar ætti því að mæta fullur sjálfstrausts á HM:
„Já klárlega. Okkur hefur gengið gríðarlega vel. Spilað frábærlega og komið svolítið mörgum á óvart. Mér líður mjög vel í líkamanum og kem gríðarlega klár í þetta mót.“
En er hann bjartsýnn á að landa titli í vor?
„Það er erfið spurning. En það er búið að ganga mjög vel og það hefur allt gengið upp, sérstaklega á móti stóru liðunum. Við þurfum bara að taka stöðuna í mars-apríl og sjá hvar við stöndum þá.“
Gísli, Ómar og Janus gefið góða innsýn
Ljóst er að Elvar yfirgefur Melsungen í sumar því hann hefur samið við Magdeburg og er spenntur fyrir komunni þangað:
„Gísli og Ómar eru þarna nú þegar og það er alltaf gott að vera með Íslendinga í liðinu. Ég er gríðarlega spenntur. Þetta er heimsklassaklúbbur og ég er spenntur að fara þangað og gera eitthvað gott,“ sagði Elvar sem hefur að sjálfsögðu rætt við Gísla Þorgeir Kristjánsson, Ómar Inga Magnússon og Janus Daða Smárason um reynslu þeirra af Melsungen:
„Maður er búinn að fá innsýn í hvernig klúbburinn er og það hljómar allt mjög vel.“