Innlent

Lygi­leg at­burða­rás í Lands­bankanum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Glerveggur við inngang útibúsins er ekki svipur hjá sjón eftir aðfarirnar.
Glerveggur við inngang útibúsins er ekki svipur hjá sjón eftir aðfarirnar. Vísir/Kristín

Mikið tjón varð á útibúi Landsbankans við Fjarðargötu í Hafnarfirði í nótt þegar maður bakkaði jeppa inn í útibúið og reyndi að hafa hraðbanka á brott með sér. Ætlunarverkið tókst ekki, maðurinn ók snarlega af vettvangi og er enn ófundinn.

Rúnar Pálmason upplýsingafulltrúi Landsbankans segir að atburðarásin hafi öll náðst skýrt og greinilega á öryggismyndavél. Maðurinn hafi bakkað jeppanum í gegnum glervegg á útibúinu, klöngrast gegnum brotið glerið með keðju og fest hana við einn hraðbankann. Að því búnu reyndi maðurinn að aka á brott með hraðbankann í eftirdragi en hraðbankinn setið pikkfastur.

Fréttamaður fór á vettvang, sýndi skemmdirnar og lýsti atburðarásinni í kvöldfréttum Stöðvar 2 hér fyrir neðan:

Atlagan hafi aðeins tekið nokkrar mínútur og maðurinn ekið burt strax og ljóst var að ránstilraunin hefði mistekist. Hann reyndi semsagt ekki aftur. Þá segir Rúnar ljóst að maðurinn hafi komið undirbúinn, hann hafi verið með keðjuna meðferðis eins og áður segir og hulið andlit sitt.

Maðurinn var enn ófundinn á sjötta tímanum. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var maðurinn á stolnum bíl, nýlegum Landrover defender.

Eins og sést eru för í veggnum eftir átökin.Vísir/Kristín

Tengdar fréttir

Reyndu að ræna hraðbanka

Í Garðabæ eða Hafnarfirði var gerð tilraun í nótt til að ræna hraðbanka. Fram kemur í dagbók lögreglunnar að tilkynnt hefði verið um eignaspjöll á hraðbankanum. Þegar upptökur voru skoðaðar kom svo í ljós að einhver hefði reynt að ræna hraðbankann en án árangurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×