Skoðun

Gagna­ver auka hag­kvæmni í fjar­skiptum Ís­lands við um­heiminn

Þorvarður Sveinsson skrifar

Á síðustu 10 árum hefur byggst upp alþjóðlegur gagnaversiðnaður á Íslandi en áhrif þessarar uppbyggingar á íslenskan efnahag eru oft fremur ósýnileg. Dæmi um þetta eru jákvæð áhrif gagnavera á útlandasambönd Íslands. Þessi jákvæðu áhrif eru einkum vegna hagkvæmni rekstrar á fjarskiptasæstrengjunum sem liggja til Íslands og eru nauðsynlegir fyrir tengsl landsins við umheiminn. Sæstrengirnir eru í eigu og rekstri Farice sem stöðugt treystir rekstrargrundvöll sinn eftir því sem gagnaversiðnaðurinn stækkar og eflist.

Ísland er fámennt, dreifbýlt og í miðju norður Atlantshafi með 1200-1500km af opnu hafi milli okkar og Evrópu. Það er áskorun og kostnaðarsamt að byggja og reka örugga fjarskiptainnviði sem tengja Ísland við útlönd. Innviðirnir verða að bera fjarskiptaumferð sem aldrei má rofna og er það hlutverk okkar hjá Farice að tryggja stöðugt samband. Félagið rekur fjarskiptasæstrengina þrjá sem bera nær alla gagnaumferð okkar til útlanda. Kerfið er hannað til þess að þola áföll enda er mikilvægi þess mikið fyrir íslenskt samfélag. Öryggi kerfisins felst í þremur fjarskiptasæstrengjum sem lenda á mismunandi stöðum um landið og eru tengdir fjölda ljósleiðara á landi á Íslandi og erlendis.

En eins og með margt á Íslandi er hagkvæmni stærðar áskorun. Til er mikil gagnaflutningsgeta í strengjunum sem hægt er að nýta fyrir alþjóðlega viðskiptavini íslenskra gagnavera. Það er þannig til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag að öflugur gagnaversiðnaður geti byggst upp á Íslandi sem getur nýtt þá umframbandvídd sem sæstrengirnir bera. Á sama hátt er öruggt fjarskiptakerfi ein af forsendum þess að sú gerð gagnaversiðnaðar sem við helst viljum hafa á Íslandi geti þrifist. Gagnaversviðskiptavinir eru mjög mismunandi þar sem sumir þurfa fremur lítil útlandasambönd en aðrir viðskiptavinir eru með miklar gagnaflutningsþarfir og eru sem slíkir verðmætir viðskiptavinir fyrir Farice. Þeim viðskiptavinum sem nota stærri fjarskiptasambönd fer hratt fjölgandi sem er jákvætt fyrir félagið.

Það er því til mikils unnið að styðja við uppbyggingu gagnaversiðnaðar á Íslandi og fjölga þannig efnahagsstoðunum samhliða því að styrkja rekstrargrundvöll fjarskiptakerfa landsins okkar, þjóðinni allri til hagsbóta.

Höfundur er framkvæmdastjóri Farice.




Skoðun

Sjá meira


×