Viðskipti innlent

Þekktir netþrjótar réðust á kerfi Wise

Samúel Karl Ólason skrifar
Jóhannes Helgi Guðjónsson er forstjóri Wise.
Jóhannes Helgi Guðjónsson er forstjóri Wise. Aðsend

Þekktur alþjóðlegur netglæpahópur er sagður hafa gert árás á kerfi upplýsingatækni Wise og tekið afrit af gögnum úr hluta kerfanna. Árásin er ekki sögð hafa haft áhrif á rekstur eða þjónustu Wise, þó hún sé alvarleg.

Í tilkynningu frá Wise (áður Þekking), sem send var út seint í gærkvöldi, segir að öryggisáætlun hafi verið virkjuð um leið og árásin leit dagsins ljós. Helstu sérfræðingar frá netöryggisfyrirtækinu Syndis hafi verið kallaðir til aðstoðar og hafa þeir aðstoðað við að afla upplýsinga um umfang árásarinnar, greina stöðuna og tryggja varnir gegn frekari árásum. Ekki kemur fram hvaða glæpahópur gerði árásina.

Wise var í maí með tæplega tvö hundruð starfsmenn og yfir fjögurra milljarða veltu.

Persónuvernd hefur verið greint frá árásinni og segir í tilkynningunni að verið sé að upplýsa þá viðskiptavini sem málið snertir um atvikið.

Þá segir í tilkynningunni að Wise sé vottað samkvæmt alþjóðlegum öryggisstöðlum og unnið sé að því að tryggja kerfi fyrirtækisins gegn frekari árásum.

„Wise mun hafa gagnsæi að leiðarljósi og er frekari upplýsinga að vænta um leið og þær liggja fyrir,“ segir að endingu í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×