Handbolti

Arnór frá Gumma til Arnórs

Sindri Sverrisson skrifar
Arnór Viðarsson er farinn frá Fredericia, að láni, og vonast eftir stærra hlutverki hjá Bergischer.
Arnór Viðarsson er farinn frá Fredericia, að láni, og vonast eftir stærra hlutverki hjá Bergischer. FHK

Eyjamaðurinn Arnór Viðarsson hefur ekki fengið að spila eins mikið og hann vildi í Danmörku á sinni fyrstu leiktíð í atvinnumennsku, og flytur nú til Þýskalands en mun áfram leika undir stjórn Íslendings.

Arnór fór í sumar frá ÍBV til danska liðsins Fredericia, sem leikur undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar, fyrrverandi landsliðsþjálfara.

Þessi 22 ára leikmaður, sem er bróðir landsliðsmannsins Elliða Snæs, hefur samkvæmt tilkynningu á vef Fredericia komið við sögu í 18 leikjum hjá liðinu en skorað samtals 16 mörk og átt 3 stoðsendingar.

Nú hefur hann verið lánaður til þýska 2. deildarfélagsins Bergischer og mun þar leika undir stjórn Arnórs Þórs Gunnarssonar.

Íslenskur þjálfari og liðsfélagi

Arnór og Markus Pütz tóku við sem aðalþjálfarar Bergischer seint á síðustu leiktíð, og tókst ekki að bjarga liðinu frá falli úr efstu deild. Arnór hafði áður verið leikmaður liðsins um árabil og svo í þjálfarateyminu eftir að hann lagði skóna á hilluna.

Hjá Bergischer hittir Arnór Viðarsson einnig fyrir Tjörva Tý Gíslason sem kom til félagsins frá Evrópubikarmeisturum Vals í sumar.

Bergischer er á toppi 2. deildarinnar með 24 stig eftir 15 umferðir, þremur stigum á undan næsta liði. Bergischer á eftir leik á sunnudag og á annan í jólum áður en við tekur hlé fram til 9. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×