Erlent

Fær ekki að breyta skil­málum fjölskyldusjóðsins

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Murdoch sótti landsþing Repúblikanaflokksins í sumar.
Murdoch sótti landsþing Repúblikanaflokksins í sumar. Getty/Leon Neal

Fjölmiðlamógúllinn Rupert Murdoch hefur verið gerður afturreka með ósk sína um að fá að breyta skilmálum fjölskyldusjóðs sem meðal annars kveða á um að elstu börnin hans fjögur fái jafnan atkvæðisrétt í viðskiptaveldi föður síns að honum látnum.

Sjóðurinn var stofnaður þegar Murdoch og önnur eiginkona hans, Anna Murdoch Mann, skildu. Mann er móðir Elisabeth, Lachlan og James Murdoch en fyrir átti Rupert elstu dótturina, Prudence Murdoch, með fyrstu eiginkonu sinni.

Skilmálarnir áttu að vera óhagganlegir, nema ef til þess kæmi að grípa þyrfti til ráðstafana til að vernda hagsmuni barnanna fjögurra. Murdoch vildi hins vegar breyta þeim þannig að Lachlan, sem stendur föður sínum næst hugmyndafræðilega séð, yrði einráður.

Lögmenn auðjöfursins vildu meina að það væri hinum börnunum fyrir bestu að Lachlan sæti einn við stjórnvölinn; þannig væri hag viðskiptaveldisins og þar af leiðandi þeirra best borgið. 

Að óbreyttu eru líkur á að breytingar verði á miðlum Murdoch, þar sem hin börnin hans eru ekki jafn íhaldssöm og Lachlan. Fox News og aðrir miðlar samsteypunnar News Corp gætu þannig að orðið öllu hófsamari en hingað til.

Yfirvöld í Nevada sem tóku beiðni Murdoch fyrir komust að þeirri niðurstöðu að um væri að ræða óforskammaða tilraun Rupert og Lachlan til að taka stjórnina af hinum þremur. Murdoch hyggst áfrýja dómnum.

Rupert Murdoch á tvær dætur til viðbótar með þriðju eigikonu sinni, Wendy Deng. Þær munu erfa föður sinn til jafns við hin börnin en fá ekki atkvæðarétt í fyrirtækinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×