Í tilkynningu þess efnis á vef Veðurstofu Íslands segir að síðast hafi sést glóð í gígnum á vefmyndavélum að morgni 8. desember. Eldgosið hafi hafist að kvöldi 20. nóvember og staðið yfir í 18 daga. Það hafi verið annað stærsta gosið að flatarmáli á Sundhnúksgígaröðinni af þeim sjö sem hafa orðið frá desember 2023.
Eins og áður hafi verið greint frá sé landris hafið á ný og það hafi haldið áfram síðustu daga. Þetta bendi til þess að kvikusöfnun undir Svartsengissvæðinu sé hafin á ný.