Í morgun var gefin út viðvörun á Merseyside vegna stormsins Darragh og ekki var því annað í stöðunni en að fresta leiknum.
Í yfirlýsingu frá Everton segir að leiknum hafi verið frestað af öryggisástæðum. Það séu auðvitað vonbrigði fyrir stuðningsmennina en öryggi þeirra, starfsfólk og leikmanna skipti mestu máli.
Leikurinn átti að hefjast klukkan 12:30 en þetta er síðasti Merseyside-slagurinn á Goodison Park. Everton flytur á nýjan völl eftir tímabilið.
Milljónum manna í Wales og á Suðvestur-Englandi hefur verið sagt að halda sig innandyra vegna Darragh. Hann hefur þegar haft talsverð áhrif á íþróttaviðburði undanfarna daga. Til að mynda þurfti að fresta tveimur leikjum í ensku B-deildinni og einum í C-deildinni.