Innlent

Land­ris hafið enn eina ferðina í Svarts­engi

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Landris er hafið á ný í Svartsengi.
Landris er hafið á ný í Svartsengi. vísir/vilhelm

Virkni í eldgosinu við Sundhnúksgígaröðina hefur dregist saman hægt og rólega síðustu daga. Minni virkni er sýnileg á vefmyndavélum og gosórói hefur farið minnkandi þegar horft er til síðustu daga.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vefsíðu Veðurstofu Íslands. Nýjustu aflögunargögn Veðurstofunnar benda til þess að landris sé hafið að nýju í Svartsengi GPS mælingar sýna hæga breytingu upp á við á nokkrum stöðvum. Nýjustu gervitunglamyndir frá ICEYE staðfesta þau merki sem berast frá GPS mælum.

Ingibjörg Andrea Borgþórsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við Vísi að þetta segi lítið til um hvort það muni gjósa aftur á svæðinu.

„Það er erfitt að fullyrða það að svo stöddu. Þetta þýðir það að kvika heldur áfram að streyma að neðan í kvikuhólfið. Á meðan það heldur áfram, þýðir það að það gæti komið gos en það gæti líka stöðvast eftir mánuð eða einn og hálfan. Þetta er vísbending um það að þessi svokallaði taktur sem við erum búin að sjá, landris og eldgos til skiptis. Þetta er vísbending um að það muni halda áfram en síðan getur jörðin tekið upp á því að gera eitthvað aðeins öðruvísi,“ sagði Ingibjörg.

Þá hefur hraunflæði haldið sig innan eldri hraunbreiðunnar á svæðinu og mælist lítið sem ekkert framskrið utan hennar. Gasmengun er áfram til staðar þrátt fyrir minnkandi virkni. Hættumat er óbreytt en verður endurskoðað tíunda desember. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×