Sigurður Fannar hefur sætt gæsluvarðhaldi frá sunnudagskvöldinu 15. september, eftir að hann hringdi í lögreglu og tilkynnti að hann hefði ráðið dóttur sinni bana. Hann var handtekinn við Krýsuvíkurveg og lík dóttur hans fannst skammt frá.
Samkvæmt lögum um meðferð sakamála má ekki halda mönnum lengur en í tólf vikur án þess að ákæra sé gefin út á hendur þeim eða brýnir rannsóknarhagsmunir krefjist þess.
Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá Embætti héraðssaksóknara, segir í samtali við Vísi að á mánudag verði kaflaskil í málinu og taka þurfi ákvörðun um útgáfu ákæru. Að öðru leyti vill hann ekki tjá sig efnislega um málið.