Handbolti

Svona eru milli­riðlar EM: Þórir byrjar á Dönum

Sindri Sverrisson skrifar
Kerstin Kuendig, leikmaður Sviss, í harðri baráttu við þær Katarina Jezic og Sara Senvald úr liði Króatíu.
Kerstin Kuendig, leikmaður Sviss, í harðri baráttu við þær Katarina Jezic og Sara Senvald úr liði Króatíu. EPA-EFE/GEORGIOS KEFALAS

Svartfjallaland og Sviss tryggðu sér í kvöld síðustu sætin í milliriðlakeppni EM kvenna í handbolta, ásamt Þýskalandi sem vann Ísland.

Svartfjallaland fékk aðeins fjögur mörk á sig í fyrri hálfleik gegn Tékklandi og vann leik liðanna 28-21. Þar með enduðu Svartfellingar með fullt hús stiga í B-riðli og tóku Rúmena með sér áfram í milliriðil 1. 

Sviss fylgir svo Danmörku upp úr D-riðli eftir að hafa unnið öruggan sigur gegn Króatíu í Basel í kvöld, 26-22. Danir unnu alla þrjá leiki sína og taka því með sér sigurinn gegn Sviss í milliriðil 2. Þar mætir Danmörk meðal annars liði Þýskalands sem hafði betur gegn Íslandi í kvöld.

Þar með er orðið ljóst hvaða tólf lið leika í milliriðlunum tveimur. Tvö efstu lið hvors riðils komast svo í undanúrslitin, en liðin sem enda í 3. sæti milliriðlanna spila svo um 5. sæti mótsins. Fyrstu leikirnir í milliriðlakeppninni eru á fimmtudaginn en þá eigast meðal annars við Danmörk og Noregur, undir stjórn Þóris Hergeirssonar.

Milliriðill 1: Frakkland 2, Ungverjaland 2, Svartfjallaland 2, Rúmenía 0, Svíþjóð 0, Pólland 0.

Milliriðill 2: Noregur 2, Danmörk 2, Holland 2, Sviss 0, Þýskaland 0, Slóvenía 0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×