Innlent

Stefnir í að VG þurrkist út af þingi

Jón Þór Stefánsson skrifar
Flokkur Svandísar Svavarsdóttur er ekki að mælast með mann á þingi.
Flokkur Svandísar Svavarsdóttur er ekki að mælast með mann á þingi. Vísir/Viktor

Vinstri grænir eru með talsvert minna fylgi en í síðustu kosningum 2021 og stefnir í að flokkurinn þurkkist út af þingi.

Þegar þetta er skrifað hafa tölur borist frá öllum kjördæmum en eins og staðan er núna er flokkurinn með 2,3 prósent atkvæða á landsvísu.

Í kosningunum 2021 var fylgið á landsvísu 12,6 prósent og í kjölfarið leiddi þáverandi formaður flokksins, Katrín Jakobsdóttir áframhaldandi ríkisstjórnarsamsarf Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

Fylgið nú er mest í Norðausturkjördæmi þar sem flokkurinn fær 3,7 prósent. Það er hins vegar minnst í Suðurkjördæmi þar sem hreyfingin fær 0.9 prósent.

Í Reykjavíkurkjördæmi suður, þar sem formaður flokksins Svandís Svavarsdóttir er oddviti og þingflokksformaðurinn Orri Páll Jóhannsson í öðru sæti, er flokkurinn með þrjú prósent. 

Í hinu Reykjavíkurkjördæminu er flokkurinn með 3,1 prósent.

Í suðvesturkjördæmi þar sem varformaður flokksins Guðmundur Ingi Guðbrandsson er í oddvitasætinu er flokkurinn með 1,6 prósent. 

Fréttin var uppfærð eftir að tölur bárust úr Norðvesturkjördæmi. Þar fær flokkurinn 1,7 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×