Handbolti

Rassskelltar fyrir leikinn við Ís­land

Sindri Sverrisson skrifar
Þýskaland fór illa með úkraínska liðið á EM í dag.
Þýskaland fór illa með úkraínska liðið á EM í dag. Getty/Marco Wolf

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta mætir Úkraínu í næsta leik sínum á Evrópumótinu, eftir frábæra frammistöðu gegn Hollendingum í Innsbruck í kvöld.

Þrátt fyrir hetjulega frammistöðu varð Ísland að sætta sig við 27-25 tap í kvöld gegn Hollandi, sem varð í 5. sæti á Ólympíuleikunum í sumar.

Úkraína mátti hins vegar þola mun stærra tap í leik sínum gegn Þýskalandi, eða 30-17, í seinni leik kvöldsins í F-riðli.

Þýskaland var 15-9 yfir í hálfleik og þá þegar var því ljóst í hvað stefndi, og tókst úkraínska liðinu aðeins að skora átta mörk í seinni hálfleiknum.

Alina Grijseels var markahæst hjá Þýskalandi með sex mörk og Lisa Antl skoraði fimm. Hjá Úkraínu var Liliia Horilska markahæst með fjögur mörk en þær Tamara Smbatian, Iryna Kompaniiets og Valeriia Nesterenko skoruðu þrjú mörk hver.

Á sunnudaginn mætast Ísland og Úkraína annars vegar, en Þýskaland og Holland hins vegar. Ísland mætir svo Þýskalandi á þriðjudag í lokaumferð riðilsins.

Tvö efstu liðin komast áfram í milliriðla en tvö neðstu liðin falla úr keppni.

Í öðrum riðlum vann Danmörk öruggan sigur gegn Króatíu, 34-26, og Svartfjallaland vann 24-18 í slag við granna sína frá Serbíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×