Erlent

Grænlendingar fagna nýjum al­þjóða­flug­velli

Kristján Már Unnarsson skrifar
Airbus-breiðþota Air Greenland lenti á nýju flugbrautinni í Nuuk um þrjúleytið í dag.
Airbus-breiðþota Air Greenland lenti á nýju flugbrautinni í Nuuk um þrjúleytið í dag. KNR

Grænlendingar fagna í dag nýjum alþjóðflugvelli í Nuuk. Opnun vallarins er sögð marka þáttaskil í samgöngum Grænlands við umheiminn og var almenningi boðið til hátíðar með tónleikum og veisluhöldum í dag og flugeldasýningu í kvöld.

Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá Airbus A330-breiðþotu Air Greenland, flaggskip grænlenska flugflotans, koma svífandi inn til lendingar í beinu flugi frá Kaupmannahöfn. Mannfjöldi safnaðist saman í kringum flugvöllinn til að verða vitni að þessari fyrstu lendingu stórrar farþegaþotu í höfuðstað Grænlands.

Flugmennirnir veifuðu grænlenska fánanum við komuna.KNR

Flugbrautin var lengd úr 950 metrum í 2.200 metra. Það þýðir að núna þurfa farþegar til og frá Nuuk ekki lengur að fljúga um Kangerlussuaq-flugvöll á leið sinni í þotuflug milli landa en áður gátu aðeins smærri flugvélar sérhæfðar fyrir stuttar brautir lent í Nuuk.

Innileg ánægja skein úr andlitum fyrstu farþeganna.KNR

Áður hafði flugvél Isavia ANS gert flugprófanir á nýju brautinni, sem búin er fullkomnum aðflugstækjum og ljósabúnaði fyrir báða brautarenda. Það gerir flugvélum kleift að lenda í myrkri og slæmu skyggni. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia ANS sá félagið um alla hönnun flugferla að vellinum sem og prófanir þeirra.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:

Hér má sjá lengra myndband grænlenska sjónvarpsins KNR af komu þotunnar til Nuuk í dag:


Tengdar fréttir

Þjóðhátíð í Nuuk vegna opnunar flugvallarins

Boðað hefur verið sannkallaðrar þjóðhátíðar í Nuuk á fimmtudag með tónleikum, veisluhöldum og flugeldasýningu. Tilefnið er opnun nýs alþjóðaflugvallar og fyrsta lending stórrar farþegaþotu í höfuðstað Grænlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×