Handbolti

Baldur og Hrannar með sam­tals 25 mörk í sigri ÍR

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Feðgarnir Baldur Fritz Bjarnason og Bjarni Fritzson. Bjarni er þjálfari ÍR en Baldur markahæsti leikmaður liðsins og Olís deildarinnar allrar.
Feðgarnir Baldur Fritz Bjarnason og Bjarni Fritzson. Bjarni er þjálfari ÍR en Baldur markahæsti leikmaður liðsins og Olís deildarinnar allrar. vísir/bjarni

Eftir að hafa tapað fjórum leikjum í röð vann ÍR góðan sigur á Fjölni, 41-33, í nýliðaslag í Olís deild karla í kvöld. Staðan var jöfn í hálfleik, 17-17, en í seinni hálfleik reyndust ÍR-ingar sterkari.

Baldur Fritz Bjarnason og Hrannar Ingi Jóhannsson drógu vagninn fyrir ÍR í kvöld. Sá fyrrnefndi skoraði þrettán mörk og sá síðarnefndi tólf. Þeir skoruðu samtals 25 mörk í leiknum í kvöld úr 32 skotum.

Sem fyrr sagði var staðan jöfn í hálfleik, 17-17, en heimamenn náðu yfirhöndinni í upphafi seinni hálfleiks. Þeir skoruðu fjögur af fyrstu fimm mörkum hans og voru alltaf með frumkvæðið eftir það.

Fjölnir minnkaði muninn í tvö mörk um miðjan seinni hálfleik, 26-24, en ÍR svaraði með 6-2 kafla og komst sex mörkum yfir, 32-26. Á endanum munaði svo átta mörkum á liðunum, 41-33, í miklum markaleik.

Með sigrinum komst ÍR upp úr botnsæti deildarinnar og sendi Fjölni þangað. ÍR-ingar eru með sjö stig í 11. sæti deildarinnar en Fjölnismenn í því tólfta með sex stig.

Björgvin Páll Rúnarsson skoraði níu mörk fyrir Fjölni sem hefur tapað fjórum síðustu leikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×