Greint var frá því þann 8. nóvember að starfsfólk Reykjavíkurborgar hefði farið í óboðað eftirlit vegna ábendinga um slæman aðbúnað barnanna á leikskólanum.
„Í dag var fundað með leikskólastjóranum og farið yfir þær úrbætur sem skóla- og frístundasvið krefur að gerðar verði. Í framhaldinu hefur leikskólastjóri tækifæri til að bregðast við og mun skóla- og frístundasvið áfram fylgja málinu eftir næstu vikur,“ segir Hjördís Rut Sigurjónsdóttir upplýsingafulltrúi á skóla- og frístundasviði.
Í svarinu kemur jafnframt fram að frá því að farið var í heimsókn í byrjun nóvember hafi verið ljóst að vissum skilyrðum leikskólastarfsins væri ábótavant og að síðan þá hefði starfsfólk sviðsins reglulega farið í heimsóknir. Auk þess hafi verið talað við starfsfólk og öllum fyrirspurnum frá foreldrum svarað. Þá hefur verið boðað til foreldrafundar vegna málsins í næstu viku. Þá verða foreldrar upplýstir um stöðu mála.
Fóru ekki út að leika og grétu mikið
Leikskólinn var til umræðu í Facebook-hópnum Mæðratips fyrr í mánuðinum. Fyrrverandi starfsmaður leikskólans setti þar inn færslu þar sem hún sagði börnin aldrei fara út að leika, að ekkert skipulagt starf væri í leikskólanum og að flest börnin væru grátandi mest allan daginn og að væflast um í herbergjunum.
Þá sagði hún börnin reglulega skilin eftir í litlum og köldum herbergjum með gömul og óspennandi leikföng. Í þessum herbergjum væru þau frá því að þau mæti um klukkan 8 og til klukkan 11. Þá fari þau að borða og leggja sig. Eftir það fari þau aftur í herbergin.
Þá sagði hún matinn eins allar vikur og að á leikskólanum starfi of fáir starfsmenn og fáir skilji íslensku. Þá sagði hún einnig starfsmenn reglulega pirra sig á börnunum.
Fram kom í umfjöllun á Vísi þann 8. Nóvember að stjórnendur skólans hefðu verið boðaðir á fund vegna málsins. Sá fundur fór fram þann 11. Nóvember.