Skoðun

Rjúfum kyrr­stöðu í vegaframkvæmdum um allt land

G.Svana Sigurjónsdóttir skrifar

Suðurkjördæmi er með víðfemari kjördæmum landsins og það býr við hvað mestu umferðina. Við í Miðflokknum sjáum að staða þjóðvegakerfisins er orðin grafalvarleg vegna viðvarandi viðhaldsleysis og aukningar á umferð. Það er augljóst að mikilvægt er að verja raunverulegum skatttekjum af akstri og ökutækjum til uppbyggingar vegakerfisins og rjúfa kyrrstöðuna á landsbyggðinni þegar kemur að vegamálum.

Miðflokkurinn ætlar að bregðast við þessari stöðu á þjóðvegunum og fara að framkvæma fær hann brautargengi til þess. Við viljum til dæmis gera staðbundna samgöngusáttmála þar sem horft er til landshluta og framkvæmda innan þeirra með heildstæðum hætti. Það er ein leið til þess að koma hlutunum hratt áfram.

Þar skiptir miklu fyrir okkur sem ferðumst um svæðið frá Vík að Höfn að fá nýjan láglendisveg um Mýrdal og jarðgöng í gegnum Reynisfjall. Slík framkvæmd myndi ekki aðeins stuðla að umferðaröryggi og greiðfærni heldur líka nýtast fólk sem er að ferðast alla leið austur á firði sem og stuðla að uppbyggingu hringvegarins um Mýrdal.

Fjármagn ríkisins á ekki að fara í kostnaðarsama borgarlínu, Miðflokkurinn hafnar alfarið hugmyndum um hana eins og þær liggja fyrir. Það sem þarf eru einfaldar og hagkvæmar útfærslur á almenningssamgöngum. Það minnkar rask og fer betur með annarri umferð sem er þegar til staðar.

Við í Miðflokkum viljum sjá að flugstarfsemi geti blómstrað í Vatnsmýrinni til langrar framtíðar en jafnframt að Keflavíkurflugvöllur verði meginflugvöllur landsins.

Miðflokkurinn mun beita skynsemi í samgöngumálum.

Til þess að Miðflokkurinn komist í aðstöðu til þess að breyta þessu er mikilvægt að greiða honum atkvæði 30. nóvember nk. Við vonumst eftir þínum stuðning!

Hér má kynna sér stefnu Miðflokksins í samgöngumálum og aðrar kosningaráherslur.

Höfundur er áhugakona um samgöngubætur og situr í 5.sæti hjá Miðflokknum í Suðurkjördæmi




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×