Innlent

Kæla öll „hraunaugu“ og loka þeim

Samúel Karl Ólason og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Hraunkantar við varnargarðanna eru kældir áður en vinnuvélar eru notaðar til að hækka garðana.
Hraunkantar við varnargarðanna eru kældir áður en vinnuvélar eru notaðar til að hækka garðana. Vísir/Vilhelm

Vinna við að kæla hraunið við varnargarðinn kringum Svartsengi og Bláa lónið hefur gengið mjög vel. Kælingin hefur staðið yfir frá því í gærkvöldi og mun halda áfram á meðan verið er að hækka varnargarðinn.

Hraun rennur með varnargörðunum og hefur hraungarðurinn á köflum náð hæð varnargarðanna. Því er unnið að því að hækka varnargarðanna og er hraunkæling liður í því.

Helgi Hjörleifsson, aðstoðarvarðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og hraunkælingarstjóri, segir að hraunið sé kælt áður en vinnuvélar séu notaðar til að hækka varnargarðinn.

„Við kælum hraunkantinn svo hægt sé að styðjast við þá,“ segir Helgi.

„Að sjálfsögðu, ef að það opnast göt, svona hraunaugu í kantinum, þá reynum við að bregðast við því, kæla þau niður og loka þeim augum.“

Vinnan hófst í gærmorgun og Helgi segir hana hafa gengið ótrúlega vel. Dælingin sjálf, og kæling hraunsins, hófst svo í nótt. Verið er að kæla hraun á um 150 metra kafla á varnargarðinum og stendur til að hreyfa vinnuna, með vinnuvélum ef og þegar þörf er á.

Helgi segir að kælingin muni halda áfram allan sólarhringinn þar til þeim verði sagt að hætta. Veðurstofa Íslands tilkynnti í morgun að virkni hefði minnkað í miðgígnum í eldgosinu en þaðan hefur hraunið flætt með varnargörðunum sem nú er verið að hækka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×