Innlent

Hvetja í­búa Suður­nesja til að spara heita vatnið

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Hraun rennur nú meðfram varnargörðunum og hefur náð hæð þeirra á köflum.
Hraun rennur nú meðfram varnargörðunum og hefur náð hæð þeirra á köflum. HS Orka

HS Orka biður viðskiptavini sína á Suðurnesjum um að vera undir það búin að eldgosið við Grindavík gæti haft áhrif á afhendingu á heitu vatni. Íbúar eru hvattir til að fara sparlega með heita vatnið og halda varma inn í húsum með því að hafa glugga lokaða.

Í tilkynningu segir að heitavatnsnotkun á Suðurnesjum hafi aldrei verið jafnmikil á þessum árstíma og hún er nú, meðal annars vegna þess hvað byggðin hefur stækka. Heitavatnsframleiðslan í Svartsengi sé undir miklu álagi við þær aðstæður sem nú eru, og þær gætu breyst fljótlega og heitt vatn mögulega hætt að berast frá Svartsengi.

Hraunið náð varnargörðum á köflum

Þá segir að staðan sé þannig að hraun renni meðfram varnargörðum við Svartsengi og Bláa lónið. Hraungarðurinn hækki við þær aðstæður og hafi nú náð hæð varnargarðanna á köflum.

Nú sé unnið að því að hækka varnargarða og undirbúa hraunkælingar við þá.

Auk þess sé unnið að því að byrgja þann hluta Njarðvíkuræðar sem liggur innan varnargarða með sama hætti og lögnin er varin fyrir utan varnargarða.

„Vel er fylgst með ástandi lagnarinnar og allar mælingar benda til þess að hraunflæði hafi enn sem komið er ekki haft áhrif og afhendingargetan því óskert. Eldgosið hefur því ekki haft teljandi áhrif á afhendingu á heitu vatni, köldu vatni eða rafmagni til sveitarfélaganna á Suðurnesjum og standa vonir til að svo verði áfram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×